Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Umhverfismál eru málaflokkur sem mun marka framtíðina meira en nokkurt annað mál sem við höfum verið að ræða hér á undanförnum þingum. Umhverfismál hafa verið víðs vegar í ráðuneytum og fjöldi þingmanna og annarra hefur lýst því yfir að ástæða sé til að samhæfa þessa hluti, koma þeim yfir í eitt ráðuneyti, gera átak, reyna að verða við kröfum þeirra sem vilja bæta umhverfismálin í landinu. Nú hefur verið tekin sú ákvörðun af ríkisstjórn og stjórnarflokkum að fara þessa leið. Það er pólitískur veruleiki, það er pólitísk staðreynd.
    Ég hef verið að furða mig á því í dag og undanfarna daga hvað menn hafa átt erfitt með að afgreiða þetta mál. Þetta er mjög einfalt frv. Það er spurningin um það hvort eigi að stofna umhverfisráðuneyti eða ekki og síðan er ákvæði til bráðabirgða þar sem segir:
,,1. Eftir gildistöku laga þessara skipar umhverfisráðherra nefnd til þess að semja frv. til laga um umhverfisvernd.
    2. Fyrir 1. nóv. 1990 skal umhverfisráðherra í samráði við viðkomandi ráðuneyti beita sér fyrir endurskoðun á lögum um Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 20/1986, Landgræðslu ríkisins, nr. 17/1965, og Skógrækt ríkisins, nr. 3/1955, með síðari breytingum, svo og öðrum lögum ...`` ( SalÞ: Það er búið að sleppa þessu og breyta frv.) Er búið að breyta þessu? ( Gripið fram í: Þetta er allt farið.) Þetta var í fyrstu gerð frv. og síðan er það komið hér annars staðar. (Gripið fram í.) Frv. var breytt í Nd., nú já, en eftir stendur 1. gr. um það hvort eigi að stofna umhverfisráðuneyti eða ekki. Það er spurningin sem þarf að svara. Og það vefst mjög fyrir mönnum að svara þeirri einföldu spurningu. Menn velja að ræða um skordýr og skordýraeitur, um hænur og hænsni, um hvers konar
aðra hluti og lesa upp úr ljóðabókum, tefja mál, hafa uppi málþóf sem er þinginu vissulega til niðurlægingar.
    Sannleikurinn er sá, og ég hélt að það væri líka veruleiki, að ef menn ætla að róa til fiskjar byrja menn á því að ráða skipstjóra og áhöfn og síðan fara þeir á sjóinn. ( EgJ: Þeir byrja með því að kaupa sér bát, byrja á bátnum.) Við skulum vænta þess að menn sem ætla að fara til fiskjar eigi bát. Það gera menn hér alla vega á þessu landshorni. Og það er akkúrat sú mynd sem blasir við í dag. Það hefur verið ákveðið hver á að taka þetta verkefni að sér. Það hefur verið ákveðið af ríkisstjórnarflokkunum að stofna þetta umhverfisráðuneyti. Það mætir mótspyrnu annarra, það er alveg rétt, hversu mikið sem menn tala um það hvað þeir vilja gera umhverfismálum gott, hvað þeir vilja gera vel í þeim málum, þá velkist þetta þingtæknilega atriði fyrir mönnum, hvernig með þetta mál skuli fara. Hvort þetta frv. er afgreitt sér eða bæði saman, hvort á eftir öðru, er spurning um þingtæknilegt atriði og ekkert annað. Og ég tel þessa umræðu alla markast af því eða einhverjum

annarlegum ástæðum sem koma ekki málinu við. Þarna er annað og meira á bak við. ( Gripið fram í: Vill ræðumaður ekki skýra þetta nánar? Af annarlegum ástæðum?) Ég tel að þetta sé af annarlegum ástæðum, og ég endurtek það. Ég held að það sé nær þeim sem hafa staðið í því að tefja þetta mál að skýra hvers vegna þeir gera það. Það er spurt hér, ráðherra er spurður að því: Hvers vegna má þetta mál ekki bíða? En ég spyr: Af hverju eiga mál að bíða? Af hverju má ekki afgreiða mál? Hvers konar vinnubrögð eru það að standa í vegi fyrir því að menn geti afgreitt hlutina hér á Alþingi? Hvernig stendur á því að fólk sem hefur umhverfismál á vörunum meinar ekki meira með því en svo að leggja til í nál. að tillagan um umhverfisráðuneyti verði felld? Og nú vill Kvennalistinn ekki taka þátt í afgreiðslu málsins. Þar er ekki rökstuðningur að baki heldur þingtæknilegar hundakúnstir og ekkert annað.
    Ég leyfi mér að ætla að mjög sjaldan hafi það komið svo berlega í ljós að menn meina ekkert með því sem þeir eru að segja þegar þeir halda hér langar ræður. Þeir sem eru að tefja þetta mál eru náttúrlega á móti málinu. Þeir sem vilja fella þetta mál eru á móti því að gera betur í umhverfismálum. Þeir sem ekki vilja skipta sér af afgreiðslu þessa máls heldur bara tala um það eru á móti málinu. Þeir vilja tefja fyrir því að umhverfismálum verði komið í betra horf hér í landinu, vilja tefja fyrir því að þessi mál verði samhæfð, þessi málaflokkur verði samræmdur, það verði gert átak í þessum málum. Ég fullyrði að þar liggur ekkert annað að baki en tefja framgang þeirra mála. Það eru engin rök fyrir því að svo verði gert.
    Fylgifrv. er í Nd. og væntanlega fær það afgreiðslu þar eða fær frið fyrir því málþófi sem uppi hefur verið. En ekki vil ég spá um það, líklega verður það tafið eins og mönnum dettur í hug. Ég vænti þess að þetta frv. fái verðugan framgang og sem fyrst vegna þess að nauðsynlegt er að sinna þessum málum betur. Því fyrr sem þetta mál verður samþykkt því betur verður gert í þessum efnum. Við í Alþfl. höfum rætt þessi mál mjög oft og mikið og þingflokkur Alþfl. styður eindregið að þessu máli verði hraðað.