Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Formaður þingflokks Alþb. er nýkominn úr þessum stól og einnig varaformaður Verkamannasambands Íslands. Við munum nú á morgun ræða lagabálk sem tengist þeim nýju kjarasamningum sem verkalýðshreyfingin hefur staðið að ásamt vinnuveitendum, kjarasamningum sem eru byggðir á því að viðurkenna þá miklu kjaraskerðingu sem hefur orðið, kjaraskerðingu sem var óhjákvæmileg eftir að sú stjórn settist að völdum sem nú ríkir. Jafnframt liggur það fyrir að í þessum samningum lögðu aðilar vinnumarkaðarins ríka áherslu á að nauðsynlegt væri að ríkisvaldið sýndi mikið aðhald og má raunar segja að bæði Alþýðusamband Íslands og vinnuveitendur hafi verið sammála um það að nauðsynlegt væri að ríkisstjórnin sýndi að sínu leyti vilja til þess að draga úr ónauðsynlegum rekstrarútgjöldum. Það vekur þess vegna athygli að eini stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar hér í þessari hv. deild sem réttlætir þá málsmeðferð, og telur hana raunar rétta, sem hér er viðhöfð, að slíta í sundur það frv. sem hér er til umræðu, um umhverfisráðuneyti, og hins vegar fylgifrv. þess, um þau verkefni sem í ráðuneytið eiga að fara, skuli vera varaformaður Verkamannasambandsins. Það er nú svo samkvæmt fjárlögum að það kostar um 23 millj. kr. að stofna þetta ráðuneyti og það kom einnig fram við umræðurnar um fjárlög og í greinargerðum að þetta er hreinn kostnaður vegna stofnunar ráðuneytisins, stofnkostnaður vegna nýrrar yfirstjórnar ráðuneytis, en um leið tekið fram að ef verkefni verði færð frá öðrum ráðuneytum til umhverfisráðuneytis sé gert ráð fyrir fé til þess að standa straum af þeim verkefnum undir þeim ráðuneytum þar sem verkefnin eru núna. Við erum þess vegna að tala um 23 millj. kr. ,,spandans`` í þetta ráðuneyti. Eftir því sem það dregst lengur að ráðuneytið taki til starfa verður meira eftir af þessum 23 millj. kr.
    Þessi varaformaður Verkamannasambands Íslands sá á hinn bóginn ekki ástæðu til þess að kveðja sér hljóðs hér í gær þegar til umræðu var frv. um stjórn fiskveiða. Þá sá hann ekki ástæðu til þess að gera grein fyrir sínum sérstöku skoðunum á því frv. þó svo að fyrir liggi í bókun, sem formaður þingflokks Alþfl. gerði þegar gengið var frá málinu í þeirri samstarfsnefnd sem samdi það frv. sem hér var lagt fram, að í Alþfl. væru uppi ýmsar skoðanir um það frv., ýmsar athugasemdir, og að Alþfl. teldi óhjákvæmilegt að því frv. yrði breytt í ýmsum atriðum hér í deildinni. Það frv. vakti ekki áhuga þessa hv. þm. Suðurnesja. Hann sá ekki ástæðu til að taka til máls um það en var með ósmekklegar athugasemdir hér áðan og reyndi að gera lítið úr því þegar aðrir þingmenn gerðu athugasemd við að ekki héldist í hendur að stofna umhverfisráðuneyti og sjá því fyrir verkefnum. Mun ég víkja nánar að því síðar.
    En skýrasta svarið við orðræðum þessa þingmanns var ræða formanns þingflokks Alþb. sem talaði næst á undan honum. Þar sagði formaður þingflokks Alþb.

að hann teldi eðlilegt að málin fylgdust að, frv. um umhverfisráðuneyti og um þá málaflokka og þau verkefni sem þangað færu. Formaður þingflokks Alþb. talaði jafnframt um það að ef síðara frv. yrði keyrt áfram með sama hætti og þetta frv. sýndi það glögglega að hugur fylgdi ekki máli með stofnun umhverfisráðuneytis. Það er þess vegna alveg ljóst að það er ekki einungis stjórnarandstaðan sem hefur kveðið skýrt að orði hér í þessum ræðustól um að hér sé öfugt farið að hlutunum, heldur hefur þessi fulltrúi Alþb. talað hér skýrt og afsakaði raunar hv. 4. þm. Vesturl. Skúla Alexandersson þegar hv. þm. gat þess að hv. 4. þm. Vesturl. hefði skrifað undir nál. sem fulltrúi Alþb. sem ætti sér skýringu í því að Alþb. hefði samþykkt þessa málsmeðferð. Ómögulegt var að skilja ummælin öðruvísi en svo að sú undirskrift hefði verið veitt með blendnum hug, satt að segja.
    Formaður þingflokks Alþb. sagði að þessi vinnubrögð væru þau að fyrst ætti að kaupa hattinn og setja á haus eins ráðherra en síðan kæmi í ljós hvað undir honum yrði og við vitum af hverju nauðsynlegt er að setja hattinn á haus ráðherrans núna. Það er vegna þess að Norðurlandaráð kemur saman nú á næstu dögum hér í Reykjavík.
    Ég varð var við það að hv. 4. þm. Reykn. Karl Steinar Guðnason kunni ekki að meta góðan skáldskap sem farið var með hér áðan. Ég get þó ekki stillt mig um að fara með eitt stutt kvæði í tilefni af ummælum formanns þingflokks Alþfl. sem líka minnir raunar á tengsl okkar Íslendinga við Norðurlönd:

Ég geng um Eyrar götur.
Æ, guð komi til! Hvað er það,
sem skyggir á hálfan himininn?
Er það hattur eða hvað?

Nú, hér er ei neitt að hræðast!
Frú Hansen er þar á ferð
með hatt, sem var keyptur í Kaupmannahöfn
og kostaði jarðarverð.

En heyrið þér mig, frú Hansen!
Er hátignarsvipurinn
líka keyptur í Kaupmannahöfn?
Hvað kostaði meterinn?

    Við vitum að sá hattur sem hér er verið að tala um kostar 23 millj. kr. samkvæmt fjárlögum. Hitt er aftur óljósara hversu mikið hattur frú Hansen hafi kostað. Það er kannski örlítil vísbending að kvæðið byrjar eitthvað á þessa leið:

Á Öngulseyri búa
á annað hundrað manns
og Hinrik kaupmaður Hansen
er herra til sjós og lands.

Hver karl er þreyttur og þjáður
með þrælkunarmerki ljós,
hver kerling er kámug og rifin

og kofarnir eins og fjós.

En Hansen er sá eini
sem aldrei handtak vann.
Þó safnar enginn auði
og ístru nema hann.

    Það virðist vera, ef svo fer að engin verkefni komi í umhverfisráðuneytið, að líka verði lítið um handtökin í því húsi.
    Nú skal ég ekki segja með hvaða rökum hv. þm. getur haldið því fram að óvenjulegt sé hér í deildinni að afgreiðsla mála stöðvist. Ég á t.d. í fjh.- og viðskn. Nd. tvö lítil frv. sem ekki hafa fengist þaðan afgreidd. Þó liggur fyrir loforð um að annað þeirra skuli afgreitt og er raunar liðinn sá tími sem gefinn var til þess arna. Auðvitað er það algengt í þingsölum og algengt raunar líka í nefndum að ýmis mál fá ekki afgreiðslu undir eins með skjótlegum hætti. Við getum rifjað eitt lítið mál upp af því tagi. Nú liggur fyrir Alþingi og þessari deild raunar frv. um orkuskatt. Ef það frv. verður samþykkt og gert að lögum, eins og það liggur fyrir deildinni, eru til mjög glöggar upplýsingar um það frá Landsvirkjun og frá samtökum rafveitna og hitaveitna að það muni hafa það í för með sér að heimilisrafmagn muni hækka um 30% síðari hluta ársins. Þetta frv. átti að keyra fram, hæstv. forseti, með mikilli óbilgirni hér og það kostaði satt að segja ekki lítil átök að fá ráðherra orkumála, ráðherra Alþfl., til þess að segja sína skoðun. Þó tókst það að síðustu.
    Þá kom m.a. í ljós, eftir að hæstv. fjmrh. hafði líka sagt sína meiningu og sína sögu, að það var Alþfl. sem átti hugmyndina að því að orkuskatturinn yrði lagður á í þessari lotu. Og það sem er enn þá merkilegra er það að hæstv. iðnrh., ráðherra Alþfl., hefur síðan lýst því yfir í þessum stóli hér að þó svo að athugun sýni að orkuskatturinn sé reistur á röngum forsendum sé Alþfl. þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að leggja á skattinn eigi að síður. Er þá talað um að skattheimtan sé ekki minni en 250 millj. kr. síðari hluta ársins sem auðvitað kemur á almenning í landinu, skerðir kaupmátt almennings frá því sem nú er. Og einmitt þetta frv., sem við nú erum að tala um, er ein af ástæðunum fyrir því að nauðsynlegt er að halda áfram skattheimtunni. Og svo er það varaformaður Verkamannasambands Íslands sem hér stendur upp og segir að nauðsynlegt sé að stofna til þessarar eyðslu þegar í stað og hefur hrópleg ummæli um þá þingmenn sem telja að eðlilegt sé að hverfa frá þessari ákvörðun vegna þess að hún er óþörf, vegna þess að engin samstaða er um það hjá einstökum stjórnarflokkum hvaða verkefni skuli flytjast í hið nýja umhverfisráðuneyti.
    Nú var það svo, hæstv. forseti, að formaður þingflokks Alþb. vék nokkrum orðum að brtt. sem hefði verið lögð fram í félmn. Nd. í orðum sínum hér áðan og gerði þá tillögu að sérstöku umræðuefni. Það er nauðsynlegt, að minni hyggju, ég skal ekki fara fram á það að við þingmenn deildarinnar fáum það

orðalag nú í kvöld á þessum fundi, heldur fyrir 3. umr., að við fáum upplýsingar um það hvaða brtt. við fylgifrv. þessa frv. hér var um að ræða, þannig að við getum deilt skoðunum við þann hv. þm., en hann komst svo að orði að ef væntanlegur ráðherra umhverfismála hafi samþykkt þessa brtt. sýni það metnaðarleysi ráðherrans og stefnuleysi í þessum málum öllum.
    Nú er mér ekki alveg ljóst hvernig hægt er að ætlast til þess að deildin haldi þessum umræðum áfram. Hæstv. forseti deildarinnar féllst á það í sambandi við orkuskattinn að eðlilegt væri að deildin gerði hlé á umræðunni á meðan orkuskatturinn væri til nánari athugunar og umræðu í ríkisstjórninni. Eins stendur á um það frv. sem við erum að ræða. Það er ekki afgreitt hjá stjórnarflokkunum, ekki í ríkisstjórn, hvaða verkefni skuli fara undir umhverfisráðuneytið. Formaður þingflokks Alþb. hefur lýst því yfir að ef vinnubrögðin við fylgifrv. verði þau sömu og við það frv. sem við erum nú að ræða sýni það metnaðarleysi og stefnuleysi og það sýni að hugur fylgi ekki máli.
    Ég get ekki fundið að því þótt hæstv. forsrh. hafi brugðið sér frá til að fá sér sterkt kaffi til að hressa sig á undir þessum umræðum, eins höllum fæti og ríkisstjórnin stendur í þeim og skiljanlegt að ráðherrarnir vilji reyna að ná andlegu þreki inn á milli til þess að þola betur getuleysi sitt. En ég verð
strax nú við 2. umr. að leggja áherslu á þetta: Í röðum stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar er mikil óánægja yfir þessum málatilbúnaði. Það er einungis hv. þm. Karl Steinar Guðnason sem telur að hér sé rétt farið að og tók þá skemmtilegu líkingu að honum fyndist hæstv. umhverfisráðherra einna helst svipa til karlsins í brúnni, skipstjórans. Ég er nú ekki viss um að sjómennirnir séu ánægðir yfir þessum samanburði og má vera að þeir telji sitt hlutverk sýnu merkilegra og þjóðhagslega nauðsynlegra en það sem við erum hér að tala um.
    Óhjákvæmilegt er, að minni hyggju, að þessi hv. þm. fari einhverjum orðum um það hvaða verkefni hann vilji að séu í umhverfisráðuneytinu. Hann talaði hér um það að með því að við erum á móti því að stofna það með þeim hætti sem hér er gert, og Sjálfstfl. er raunar þeirrar skoðunar að stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis sé óþarfa munaður, ástæðulaus, og held ég að nauðsynlegt sé að þessi hv. þm. útskýri fyrir okkur hvaða málaflokka hann vilji fá undir ráðuneytið. Við vitum um það af frásögnum af fundum sem formaður Alþfl. hefur átt, hann er orðvar maður, formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, eins og þingmenn vita, að hann lét þau ummæli falla að yfirlögðu ráði og vel grundað fyrir skömmu að það væri nóg fyrir okkur að hafa sex til sjö ráðuneyti á Íslandi. Hér höfum við eitt af þessum sex til sjö, umhverfisráðuneyti án verkefna, og þá eru eftir fimm til sex sem eiga að sjá um þau stjórnsýslustörf sem þarf að annast.
    Ég hygg að ástæðulaust sé, áður en hv. 4. þm. Reykn. hefur gert nánar grein fyrir sínum málum hér á eftir, sem hann hlýtur að gera eins og hann talaði,

að hafa þessi orð fleiri, en ég ítreka þá fsp. mína til hæstv. forseta hvort hann telji ekki að hið sama eigi við um þetta mál og um orkuskattinn, að full ástæða sé til að fresta umræðunni á meðan ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um með hvaða hætti frá málinu verði gengið í ríkisstjórninni.