Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Að vísu voru ekki margar spurningar til mín, en þó nokkrar og skal ég leitast við að svara þeim.
    Hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir spurði: Fræðslu um hvað ætti umhverfisráðuneytið að fara með og jafnvel ákveðið þá með reglugerð strax og umhverfisráðuneyti er sett á fót? Þar er um að ræða að sjálfsögðu, eins og ég veit að hv. þm. er ljóst, eitthvert allra mikilvægasta verkefni umhverfisráðuneytis. Umhverfi verður aldrei verndað nema almenningur í landinu taki mjög virkann þátt í því. Það verður aldrei verndað gegn skilningi og vilja almennings. Við vitum að sá skilningur fer ört vaxandi, sem betur fer, en engu að síður er ekki nokkur vafi á því að víðtæk fræðsla um stöðu mengunarmála, umhverfismála, gróðureyðingar o.s.frv. er afar mikilvæg. Við þurfum því miður ekki annað en að aka víða um landið til að sjá t.d. bílhræin á fögrum stöðum og fleira mætti nefna. Þannig að fræðsluhlutverkið tel ég einna mikilvægast í störfum umhverfisráðuneytis.
    Hv. þm. spurði hvort ekki mætti enn um sinn duga bréfið frá 10. sept. 1989. Þetta bréf er svipað bréfi sem þáv. forsrh. Geir Hallgrímsson skrifaði þáv. félmrh. árið 1985 og fól honum að fara á svipaðan máta með mál sem ekki væru falin neinu einstöku ráðuneyti. Það bréf var látið duga ansi lengi, í fjórtán ár eða svo. Og það þykir mér orðið of langt, satt að segja, og sannarlega tími til kominn að festa umhverfismálin í sessi á þann hátt sem hér er lagt til, að ákveða umhverfisráðuneyti.
    Ég vek athygli á því, og kem þá reyndar einnig að spurningu hv. þm. Salome Þorkelsdóttur um hvað liggur á, ef ég má orða það svo, að þessi mál bæði voru á forgangslista ríkisstjórnarinnar fyrir áramótin og þess vænst að þau yrðu afgreidd fyrir áramót. Og vitanlega var það unnt ef vilji hefði verið til þess. Það var ekki og ég féllst á það að málin biðu fram yfir
áramótin. Minn skilningur var þá sá að menn mundu afgreiða málin úr nefnd í neðri deild á fyrstu eða annarri viku þingsins. Leitað var umsagnar mjög margra aðila og tími gefinn til 10. jan. sem var vissulega nægur. Um það náðist samt ekki samstaða, það brást og þá var gripið til þess ráðs að taka þetta mál út úr eins og hér hefur oft verið rakið.
    Ég get í þessu sambandi sannarlega viðurkennt að það hefði verið að mörgu leyti ágætt að láta málin fylgjast að en það er ekkert úrslitaatriði. Vitanlega koma verkefnin og þau liggja fyrir í því frv. sem liggur fyrir í hv. allshn. neðri deildar. Og eftir því sem ég best veit eru ekki nema tvær brtt. sem meiri hlutinn þar hefur rætt um og ekkert á þessari stundu vitað hvort þær verða bornar fram. Í öllum meginatriðum liggja verkefnin svo sannarlega þegar fyrir og veldur mér miklum vonbrigðum að það skuli ráða því að Kvennalistinn snýst gegn þessu máli sem hefur þó eins og kom fram hjá hv. þm. einmitt barist fyrir stofnun umhverfisráðuneytis.

    Það má kannski vekja athygli á því að árið 1969 þegar sá merki maður Bjarni Benediktsson, þáv. forsrh., mælti fyrir frv. um stjórnarráðslög tók hann sérstaklega fram að hann teldi að ekki ætti að festa ítarlega í lögum hvaða málefni heyrðu undir sérhvert ráðuneyti. Og það var ekki gert í því stjórnarráðsfrv. sem hér var lagt fram. (Gripið fram í.) Hann lýsti því þá, hv. þm., að hann teldi að forsrh. með tilstuðlan forseta landsins ætti að vera frjálst að skipa málum eins og hentaði. Þetta getur hv. þm. lesið úr gögnum frá þeim tíma. Ég er meira að segja með það samantekið ef hv. þm. óskar að skoða það betur. Og það er mjög mikið til í þessum orðum Bjarna Benediktssonar eins og æði mörgu sem hann sagði og mættu hv. þingmenn taka sér það til fyrirmyndar.
    Málin munu koma, hitt málið verður afgreitt á þessu þingi, á því er ekki minnsti vafi. Hins vegar nýtist sá tími ákaflega vel sem núna fæst til að undirbúa starfsemi umhverfisráðuneytis, ráða starfslið, hefja viðræður við hina fjölmörgu aðila sem undir það ráðuneyti munu heyra o.s.frv.
    Hvaða sess hefur umhverfisráðuneyti? var spurt. Má kannski í því sambandi einnig taka spurninguna um Brundtland-skýrsluna, rétt að ég hverfi að henni aðeins fyrst. Ég las Brundtland-skýrsluna mjög fljótlega eftir að hún kom út og ég skal viðurkenna að ég hef nokkuð annan skilning á þeirri skýrslu en hv. þm. Brundtland-skýrslan leggur gífurlega áherslu á umhverfismálin og er afar merk í þessu sambandi. En Brundtland-skýrslan gerir tvennt. Um leið og hún leggur áherslu á samræmda stjórn umhverfismála leggur hún mjög mikla áherslu á að öll fagráðuneyti verði einnig að koma inn í þau mál. Og það er rétt sem hv. sjálfstæðismenn hafa einmitt lagt áherslu á í því sambandi. Það verður að gæta þess að fara hinn gullna meðalveg, að umhverfisráðuneyti megi ekki vera eins konar yfirvaldastofnun í landinu sem tekur frumkvæðið af fagráðuneytunum heldur verður að tryggja samstarf. Umhverfisráðuneyti hefur þann gífurlega mikilvæga sess að rannsaka og fylgjast með hvernig umhverfið þróast, hvernig mengun þróast, hvernig gróður þróast o.s.frv., vekja athygli á þegar hætta skapast á einstökum sviðum og hafa síðan vald til að grípa inn í. En það á að
gerast að höfðu samráði við viðkomandi fagráðuneyti. Það á ekki að vera þar stríð á milli heldur samstarf. Og samanburðurinn við fjmrn. var að mínu mati á nokkrum misskilningi byggður því að eftir að Alþingi hefur samþykkt fjárveitingar til einstakra ráðuneyta hefur fjmrn. ekkert neitunarvald yfir því hvernig einstök ráðuneyti ráðstafa því fé. Það er þegar ákveðið af hv. Alþingi. Brundtland-skýrslan hefur ekki verið lögð fyrir ríkisstjórn Íslands, það er alveg hárrétt. Hins vegar veit ég að margir ráðherrar hafa lesið hana og hún var höfð sem grundvallarplagg ásamt ýmsu fleiru í því starfi sem nefndin vann sem frumvörpin samdi.
    Ég hef þegar svarað spurningu hv. þm. Salome Þorkelsdóttur um hvað liggur á. Ég tel að þessum málum hefði átt að vera búið að skipa fyrir mörgum árum á Alþingi, og sé okkur til lítilsvirðingar að það

hefur ekki tekist. Og svo sannarlega liggur á að koma þessum málum í fasta skipan. Við erum að verða líklega einir þjóða sem ekki höfum gert það. Bandaríkjamenn hafa ákveðið að koma upp sérstöku umhverfisráðuneyti. Það vekur nokkra athygli að það gera þeir á sama tíma og hv. sjálfstæðismenn flytja hér miklar ræður um að menn séu að hverfa frá því að hafa sérstök umhverfisráðuneyti. Þeir hafa augljóslega ekki heyrt þau ráð.
    Það voru engar spurningar hjá hv. þm. Agli Jónssyni, en hann fullyrti áðan að ég hefði sérstaklega gengið fram í því að skera niður fjárveitingar til landgræðslu og skógræktar. Þóttu mér það hin furðulegustu ummæli og vildi gjarnan heyra þau rökstudd hvenær ég hef beitt mér fyrir slíku. Ég gæti komið með tölur um hið gagnstæða en þetta held ég hafi bara verið svona eins og hver önnur fullyrðing sem svo oft heyrast því miður, órökstuddar. ( SalÞ: En vill hæstv. ráðherra svara nánar því sem ég var áðan að spyrja um. Af hverju liggur svona á í þessari viku?) Út af fyrir sig getum við dregið þetta viku eftir viku. Hvað liggur á í næstu viku? Hvað liggur á í þarnæstu viku? Þessu þingi á að ljúka 27. apríl samkvæmt tillögu forseta þingsins. Ég skal ekkert um það segja hvort það tekst, en svo sannarlega tekst það fremur því fleiri mál sem fást afgreidd, og þetta mál er búið að fá ítarlega umræðu, fullkomlega þingræðislega umræðu, bæði í Nd. og Ed. og ekki minnsta ástæða til að fresta því. Ég held að það sé hins vegar mjög ráðlegt fyrir þingið að afgreiða þau mál sem augljóslega hafa hér góðan meiri hluta og og hafa fengið góða umræðu í nefndum og deildum. Þetta er eitt af þeim málum sem þess vegna á að afgreiða. (Gripið fram í). Ég veit að hv. þm. kannast vel við það að við höfum oft afgreitt mál á miklu, miklu skemmri tíma. Þetta mál fjallar eingöngu um það hvort það eigi að stofna umhverfisráðuneyti. Í nefndinni var hins vegar fjallað um allt aðra hluti sem vissulega tengjast þessu máli. ( HBl: Er nokkur reglugerð tilbúin, hvar er reglugerðin?) Reglugerð er ekki tilbúin. Reglugerð verður gefin út strax og þetta mál er afgreitt, m.a. með tilliti til þess sem hv. þm., hinn hláturmildi og hægláti þm. deildarinnar, segir hér. Ég hef hlustað á það og tek vitanlega mikið mark á slíkum orðum.