Tilhögun þingfunda
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er óvenjulegt að boða til fundar í deild á fimmtudegi. Þegar samkomulag náðist um það að hefja fundi kl. 10 árdegis í Sþ. var ekki reiknað með því að fundir teygðust jafnlengi fram eftir deginum og áður þegar fundir hófust kl. 2. Ég geri ráð fyrir því að þessi háttur þýði þá að fundarhöld verði látin liggja niðri nk. föstudag til að greiða fyrir því að þingmenn utan af landi geti farið í sín kjördæmi, en eins og forseta er kunnugt falla þingfundir niður í næstu viku.
    Ég tel líka óhjákvæmilegt þegar boðaður er fundur með svo óvenjulegum hætti eins og nú er gert, að hæstv. forseti tímasetji fundinn með þeim hætti að þingmönnum sé a.m.k. gefin vísbending um hvenær fundur geti hafist í fyrsta lagi, hvort búist sé við að fundur hefjist kl. 11, 12, 1, 2, 3, 4 eða 5, því annir eru miklar og það getur verið þægilegt fyrir þingmenn að fá sem gleggstar upplýsingar um þinghaldið.
    Ég er sem sagt þakklátur hæstv. forseta ef hann hefur þennan óvenjulega hátt á vegna þess að þingfundir muni þá falla niður á föstudag.