Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Pálsson):
    Frú forseti. Ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju með þetta svar hæstv. utanrrh. Ég tel það vera mjög góðs vita að hann skuli með öllu hafa hafnað því að verða við kröfu hæstv. fjmrh. og formanns Alþb. um að kynna samstarfsráðherrum í EFTA og viðsemjendum í Evrópubandalaginu ályktun Alþb. Þessi krafa var borin hér fram með talsverðum þunga í umræðum á Alþingi. En ég ítreka það að ég tel ályktun af þessu tagi ekki vera útflutningsvöru og hún hefði verið hagsmunum okkar til tjóns ef hún hefði verið kynnt sérstaklega.
    Ég hef staðið í þeim skilningi að Alþb. í ríkisstjórn hafi litið á samþykkt ríkisstjórnarinnar og þessa sérstöku samþykkt Alþb. sem eina heild og í þeim tveimur samþykktum fælist í raun stefna hæstv. ríkisstjórnar. En ég fagna því og ítreka það, ég fagna því sérstaklega ef því má treysta að hæstv. utanrrh. hafi vísað þessari ályktun eins stjórnarflokkanna út í hafsauga og ætlar í engu að taka tillit til hennar í þeim viðræðum sem fram undan eru.