Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Fyrir allnokkru var till. til þál. um flugmálaáætlun árið 1990--1993 á dagskrá hér í sameinuðu þingi og þá lýsti hæstv. samgrh. því yfir, ef ég man rétt, og hefur reyndar gert það oft endranær, að ekki kæmi til greina meðan hann væri samgrh. að heimila Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins forkönnun á mögulegri staðsetningu og gerð alþjóðlegs varaflugvallar á Íslandi.
    Síðan það gerðist hefur till. til þál. um forkönnun Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins á alþjóðlegum varaflugvelli á Íslandi komið til umræðu hér í sameinuðu þingi og þá ítrekaði hæstv. utanrrh. fyrri yfirlýsingar sínar um að forræði þessa máls væri í sínum höndum og hann mundi veita heimild til slíkrar forkönnunar nægilega snemma til þess að tryggt yrði að fjárveiting til hennar fengist úr Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Áður hefur hæstv. utanrrh. lýst því yfir að slíkur flugvöllur hefði mikla almenna þýðingu fyrir okkur Íslendinga og stuðlaði að meira öryggi í flugi hér á landi, yrði auk þess mikill hvalreki þeirra byggðarlaga þar sem slíkur flugvöllur yrði lagður.
    Nú sé ég, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. er genginn í salinn en mér skilst að það sé brtt. einhvers staðar í loftinu í sambandi við nýtt umhverfisráðuneyti um það að ef umhverfisráðherra og landbrh. komi sér ekki saman þá úrskurði forsrh. og má vera að eins verði í þessu máli um forkönnun varaflugvallar hér á landi. En spurning mín til hæstv. utanrrh. er svohljóðandi: ,,Hversu má það vera að ekki hefur verið gefið svar við því hvort Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins verði leyft að gera forkönnun á hagkvæmni þess að fullkominn varaflugvöllur verði lagður hér á landi?``
    Ég óskaði sérstaklega eftir því að hæstv. samgrh. yrði viðstaddur þessa umræðu til þess að honum veittist tóm til að gera athugasemdir og var forseti svo elskulegur að verða við því.