Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Út af þeirri umræðu sem hér er orðin langar mig aðeins að leggja orð í belg, ekki síst vegna þess sem hæstv. samgrh. sagði hér rétt áðan. Mig langar til þess að vita á hvern hátt er verið að fullnægja því að reisa hér varaflugvöll fyrir millilandaflug okkar Íslendinga. Samkvæmt flugmálaáætlun sem dreift hefur verið sé ég ekki að svo sé. Ef ég lít t.d. til þess sem varið er til Alexandersflugvallar við Sauðárkrók sé ég það ekki. Og ef ég les till. til þál. sem flutt var af hæstv. núv. samgrh. um þessi mál, þá segir hann í sinni greinargerð og vitnar þar til tveggja aðila, annars vegar Sigurðar Aðalsteinssonar, flugstjóra Flugfélags Norðurlands, þar sem hann segir í greinargerð með tillögum núv. samgrh.: ,,Ef við lítum á fjóra flugvelli sem oft hafa verið nefndir í þessu sambandi og liggja utan veðursvæðis Reykjanesskagans þá er aðflug og veðurfarsskilyrði líklega best á Sauðárkróki.`` Síðan segir varaflugmálastjóri þá, Hilmar Baldursson, um þetta mál: ,,Ég er sammála þeirri niðurstöðu sem komið hefur fram varðandi samanburð á Akureyri og Sauðárkróki, að flugtæknilega og veðurfarslega er Sauðárkrókur mun betri kostur.`` Þetta eru vopnin sem núv. samgrh. notaði þá til þess að vinna fylgi við byggingu varaflugvallar í sínu kjördæmi. Þess vegna segi ég að það skýtur skökku við, þegar hann leggur fram flugmálaáætlun, hvernig að þessum málum er unnið miðað við þá sem hann vitnar hér til og hafa þekkingu á þeim málum sem þeir eru að fjalla um.