Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Þetta varaflugvallarmál tekur á sig einkennilegar myndir. Ég skil ekkert í málflutningi Sjálfstfl. í þessum efnum. Og það vakna ýmsar spurningar í þessu sambandi. Er Sjálfstfl. á móti því að Mannvirkjasjóður NATO endurskoði sínar langtímaáætlanir í ljósi þeirra atburða sem gerst hafa? Ég fæ ekki skilið þennan mikla áhuga sem er á þessu máli núna og það sé af hinu illa að þessar áætlanir séu endurskoðaðar. Í mínum huga getur sú endurskoðun verið m.a. um það hvort það á að byggja hér stóran herflugvöll eða útbúa einhvern af þeim flugvöllum sem fyrir eru með tækjum, slökkviliði og öðru sem nægir til þess að fullnægja kröfum varavallar. En þetta eru undarlegar umræður sem upp eru hafnar hér trekk í trekk um þetta mál.