Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Fyrir utanrmn. þingsins liggur till. til þál. flutt af þingmönnum Sjálfstfl. um það að fela ríkisstjórninni að heimila án tafar að hefja forkönnun á mögulegri staðsetningu alþjóðlegs varaflugvallar, eins og það er orðað. Ég hef af því tilefni óskað eftir því í utanrmn., ég upplýsi það hér, að ítarleg athugun fari fram á forsögu þessa máls. Eitt af því sem tengist forsögu málsins er viðtal sem Ríkisútvarpið átti við hæstv. utanrrh. 9. febr. sl., þar sem m.a. kom fram, ef ég hef tekið rétt eftir, að engin formleg beiðni hafi borist frá Atlantshafsbandalaginu eða Mannvirkjasjóði þess um þennan hernaðarvaraflugvöll. Og það er auðvitað ástæða til að átta sig á því hverjir það eru sem eru að knýja á um þetta mál. Ég held að staðreyndin sé nefnilega sú að betlistafurinn er á lofti frá aðilum hér á landi og nær alla leið inn á Alþingi Íslendinga og það sér ekki á hvor reiðir hann hærra á loft þingmenn Borgfl. með hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson í fararbroddi, sem vilja fá herliðið til að leggja hér vegi, eða þm. Sjálfstfl. og Alþfl., sem vilja fá herliðið til að byggja hér varaflugvelli fyrir Íslendinga.