Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Ég kalla það að bera af mér og öðrum sakir sem lagt hafa grundvöll að þeirri stefnu sem nú er framfylgt í flugmálum okkar Íslendinga, ég kalla það að bera af okkur sakir þegar því er ítrekað haldið hér fram án nokkurs rökstuðnings að öryggishagsmunir séu fyrir borð bornir með því að heimila ekki undirbúning að byggingu flugvallar eftir mörg, mörg, mörg, mörg ár. Það er hins vegar stórkostlega alvarlegt mál og væri að bera öryggishagsmuni fyrir borð ef ekki væri verið að vinna að því að leysa þetta mál eins og nú er gert og það með áformum og flugmálaáætlun sem gerir ráð fyrir því að lausn verði komin í þetta mál mörgum árum fyrr en sú herstöð, sem hér ætti þá að reisa undir dulnefninu varaflugvöllur, liti dagsins ljós.
    Að lokum, forseti, er auðvitað mjög athyglisverð sú mikla eftirsjá og hryggð sem kemur fram í máli sérstaklega hv. þm. Sjálfstfl. yfir því að kalda stríðinu skuli vera lokið. Öðruvísi þeim áður brá.