Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að það komi fram nú í þessari umræðu vegna síðustu ræðu hæstv. utanrrh. sem gaf það til kynna í sínum orðum að Sjálfstfl. hefði látið undir höfuð leggjast að taka ákvörðun um forkönnun árin 1985, 1986 og 1987 að það er á misskilningi byggt þegar af þeirri einföldu ástæðu að það var ekki fyrr en sumarið 1988 sem fyrir lá að Bandaríkjamenn mundu ganga að skilyrðum Íslendinga varðandi þetta mál sem hér er til umræðu. Þess vegna er þessi fyrirsláttur hæstv. ráðherra algerlega út í hött og árásir hans á fyrrv. utanrrh. eru honum náttúrlega ekki til sóma.