Ríkisstyrkir til sjávarútvegs í Noregi
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Í tilefni af þessari fsp. hv. 1. þm. Suðurl. tel ég rétt fyrst að rifja upp eftirfarandi. Í samþykkt EFTA hinn 14. júní 1989 er kveðið á um að frá og með 1. júlí 1990 taki gildi fríverslun með fiskafurðir með þeim hætti að ákvæði sem gilt hafa um fríverslun með iðnaðarvörur nái einnig yfir fisk og fiskafurðir að öðru leyti en því að ákveðinn var aðlögunartími varðandi þrennt:
    1. Ákvæði 13. gr. varðandi ríkisstyrki taka gildi eigi síðar en 31. des. árið 1993.
    2. Svíþjóð er heimilt að beita innflutningskvótum á þorsk og síld í fersku eða kældu formi til 31. des. 1993.
    3. Finnlandi er heimilað að halda tímabundið núverandi innflutningshöftum á laxi og Eystrasaltssíld en ber að tilkynna fyrir 31. des. 1992 hvenær þau verði afnumin.
    Þetta eru með öðrum orðum aðlögunarákvæði sem eru hliðstæð við þá aðlögun að fríverslun með iðnaðarvörur sem átti sér stað á sínum tíma innan EFTA. Svar við fsp. hv. þm. sem slíkri og með tilvísun í það sem þegar hefur verið sagt er því þetta: Þar sem ákvæðin um ríkisstyrki í samþykkt EFTA um fríverslun með fiskafurðir taka ekki gildi fyrr en í árslok 1993 er ekki tilefni til þess fyrir utanríkisviðskiptaráðherra Íslands að mótmæla með formlegum hætti þeim ákvörðunum sem norsk stjórnvöld hafa tekið um ríkisstyrki fram að þeim tíma.