Ráðstafanir til að lækka verðbólgu og vexti
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svör hans þó að ég sé nú ekki sammála hvorki honum eða útskýringum Seðlabankans á þeirri vaxtaþróun sem hefur orðið og þeim viðmiðunum sem menn gefa sér í slíkum útreikningum. Ég er hér með aðra auglýsingu í höndum frá Íslandsbanka þar sem er verið að bjóða í sparifé. Og ef slíkar auglýsingar má ekki túlka sem uppboð þá er ég hættur að skilja íslenskt mál. Og hvað sem Seðlabankinn eða aðrir eru hræddir um þá vissum við hvernig fór á árinu 1987 þó að vísu sé dálítið annað útlit í þessum málum vegna þess að a.m.k. sumir bankarnir, en bara sumir, hafa töluvert ráðstöfunarfé handa á milli. En ég held að það sé full ástæða fyrir hæstv. ríkisstjórn að taka fast á þessu máli. Og ég mun reyna að fylgjast með því, eins og ég hef gert áður þó að ég hafi ekki eins góðar aðstæður til þess, hvernig þróun þessara mála verður. Og ég vil bara ítreka það að síðustu að ég tel að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki staðið við sinn stjórnarsáttmála í því er varðar vaxtalækkun. Í henni var miðað við lánskjaravísitölu og við hvað er miðað á hverjum tíma sem er auðvitað umdeilanlegt eins og allt í okkar lífi.