Úrbætur í meðferð nauðgunarmála
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Hinn 22. maí 1984 samþykkti Alþingi svohljóðandi þáltill. sem ég vil lesa, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að skipa fimm manna nefnd er kanni hvernig háttað er rannsókn og meðferð nauðgunarmála og geri tillögur til úrbóta í þeim efnum.``
    Þessa till. höfðu þingkonur Kvennalistans lagt fram í kjölfar fsp. frá Kristínu Halldórsdóttur, en svör við henni gáfu til kynna að úrbóta væri sannarlega þörf í þessum efnum. Eftir samþykkt till. skipaði þáverandi dómsmrh., Jón Helgason, nefnd í júlí 1984. Í henni sátu Jónatan Þórmundsson prófessor, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Ásdís J. Rafnar lögfræðingur, Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur, Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi og sú sem hér stendur.
    Nefndin vann af alúð að því verkefni sem henni var falið og skilaði rannsóknarskýrslum ásamt ítarlegum tillögum til úrbóta í október 1988 í skýrslu sinni sem prentuð var í byrjun árs 1989. Síðan er liðið um eitt ár og fjórir mánuðir og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ýta á eftir þessu máli utan þings hefur litlu þokað. Á meðan verður ekkert lát á brotum og vandi brotaþola í kynferðisafbrotamálum er jafnbrýnn og áður og ekki er lengur hægt að bíða eftir úrbótum. Því greip Kvennalistinn til þess ráðs að bera fram ítarlegar fyrirspurnir til fjögurra ráðherra til þess að krefja þá svara um framkvæmd málsins sem sannarlega er nú á ábyrgð þeirra og verður ekki lengur unað við aðgerðarleysi, þ.e. framkvæmd málsins er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Tveir ráðherrar svöruðu fyrirspurnum um málið sl. fimmtudag og kom í ljós af svörum þeirra að næsta lítið hefur verið gert. Daginn eftir birtust fréttir um athæfi kynferðisafbrotamanns sem er síbrotamaður og það vakti óvænta athygli á þessu máli sem fáir höfðu í raun gefið gaum hér í þingsölum. Það vakti líka mikla reiði meðal almennings sem því miður beindist kannski fyrst og fremst að þessum ógæfumanni en þó einnig að stjórnvöldum og vakti spurningu í hugum margra hvernig það gæti verið að slík mál, svo mikilvæg sem þau eru, séu vanrækt á þennan hátt.
    Það er vegna þessa sofandaháttar stjórnvalda sem ég lagði einnig fram fyrirspurn til hæstv. forsrh. til þess að hann svaraði því fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hver eða hverjir ráðherrar bera í raun ábyrgð á því að marka stefnu og skipuleggja úrbætur í meðferð nauðgunarmála í samræmi við tillögur nauðgunarmálanefndar sem skilað var í október 1988.