Úrbætur í meðferð nauðgunarmála
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Það hefði kannski verið eðlilegra að þessi fyrirspurn hefði verið borin fram um leið og þær ítarlegu fyrirspurnir sem ég lagði fyrir hæstv. dómsmrh. og heilbrrh. voru teknar til umræðu hér sl. fimmtudag, en það er mjög brýnt að fleiri en einn ráðherra taki á þessum málum. Tillögurnar varða ráðuneyti a.m.k. þriggja og líklega fjögurra ráðherra því að menntmrh. er í þeim hópi líka þar sem fræðsla starfsstétta og annarra er brýnn þáttur í þessum tillögum til úrbóta. Þess vegna vona ég að sú athygli sem beinst hefur að málinu hér á Alþingi hafi vakið ríkisstjórnina til meðvitundar um það hversu stór skylda hennar er og ábyrgð til þess að hrinda þessum málum í framkvæmd. Ég vona að þeir víkist ekki undan því en standi við þau loforð og þær fyrirætlanir sem þeir hafa lýst hér úr ræðustól, þeir sem nú hafa svarað spurningum. Enn er eftir að svara fyrirspurn hæstv. menntmrh. en undir hann heyra fræðslumálin sem eru, eins og ég sagði áðan, mjög brýnn þáttur í þeim aðgerðum sem gera þarf.