Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans og fagna því að nefndin skuli í þann veginn að ljúka störfum. Ég vil einnig þakka hv. 6. þm. Reykn. fyrir hennar innlegg í málið. Ég sá af lestri á umræðum um þessa þáltill. á sínum tíma að hún hafði verið einn af flm.
    Ég vil vekja athygli á því að víða erlendis þar sem dómar hafa tíðkast af þessu tagi, þ.e. um samfélagsþjónustu, hefur lífsferill margra þeirra, sem reynt hafa slíkan dóm breyst umtalsvert til batnaðar, ekki síst vegna þess að hinum dæmdu hefur þótt sem þeir í raun og veru væru að bæta fyrir afbrot sitt á þennan hátt með því að veita samfélaginu endurgjaldslausa þjónustu. Þessa tilfinningu fá menn sjaldan og miklu síður í fangelsi og koma yfirleitt forhertari þaðan en þeir fóru þangað inn, einkum og sér í lagi ef mörgu er ábótavant í fangelsum eins og hér er nú.