Félagslegar aðgerðir fyrir fanga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Reykv. beinir hér enn til mín fsp. á þskj. 567 í átta spurningum um félagslegar aðgerðir fyrir fanga og aðbúnað þeirra. Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hvaða undirbúningur er veittur í fangelsum þeim sem ljúka refsivistardómi eða losna úr fangelsi gegn skilyrðum?``
    Undanfarin missiri hafa um 100 manns verið í afplánun á hverjum tíma og rúmlega 200 manns ljúka afplánun á hverju ári. 60% af föngum afplána að jafnaði þrjá mánuði eða skemmri tíma. Fjölmargir fangar æskja ekki eftir félagslegri aðstoð á meðan á afplánun stendur eða aðstoð varðandi losun úr fangavist.
    Þrír starfsmenn Fangelsismálastofnunar sinna sálgæslu og félagslegri aðstoð við fanga, m.a. með reglulegum heimsóknum í fangelsin. Aðstoð við undirbúning að losun úr fangavist er fyrst og fremst fólgin í aðstoð við útvegun húsnæðis ef um er að ræða milligöngu um samskipti við félagsmálastofnanir, meðferðarstofnanir og í einstaka tilfellum aðstoð við útvegun vinnu.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hvaða félagslegur stuðningur er í boði fyrir þá sem fá ákærufrestun eða skilorðsbundna dóma?``
    Á undanförnum árum hefur einungis einum aðila sem dæmdur hefur verið í skilorðsbundna refsingu verið sett það viðbótarskilyrði að hann sé háður umsjón og eftirliti á skilorðstímanum, en það er grundvöllur þess að fullnustuyfirvöld geti haft með mál þessara aðila að gera. Aftur á móti er það almenna reglan varðandi ákærufrestun að viðkomandi sé háður umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar á skilorðstímanum. Aðstoð við þessa aðila er fyrst og fremst almenn félagsleg þjónusta og aðstoð varðandi samskipti við fjölskyldu viðkomandi, vinnuveitendur og aðila í dómskerfinu.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Hvað hefur verið gert til að bæta það ófremdarástand sem ríkir í aðbúnaði fanga?`` Að vísu er ekki alveg ljóst af spurningunni hvað fyrirspyrjandi á við með henni. Það kom hins vegar betur fram þegar hún var borin hér fram í töluðu máli.
    Það er öllum ljóst sem til þekkja að aðstæður og aðbúnaður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í Reykjavík er ekki góður og erfitt úr að bæta þar á staðnum. Það er jafnframt ljóst að ýmislegt má bæta á Litla-Hrauni og á ég þar sérstaklega við klefa í elsta hluta hússins. Þetta þýðir þó ekki að ekkert hafi á undanförnum árum verið gert í málefnum fanga.
    Á síðasta ári var t.d. tekið í notkun nýtt fangelsi í Kópavogi sem sérstaklega var ætlað kvenföngum og á þessu ári verður fullnaðarfrágangi á því húsnæði lokið og að því loknu verða þar pláss fyrir 12 fanga. Ég veit ekki betur en allur aðbúnaður þar þyki til fyrirmyndar.
    Á undanförnum missirum hefur markvisst verið unnið að endurbyggingu á Litla-Hrauni og mun ég hér aðeins nefna þrjú atriði. Fyrir tveimur árum var tekin

í notkun ný vinnuaðstaða fyrir stjórnendur stofnunarinnar. Fyrir rúmu ári var vinnuaðstaða bætt og vinnuframboð fyrir fanga aukið er hafin var framleiðsla á bílnúmerum. Og nú á þessum dögum er verið að ganga frá samningi við verktaka eftir útboð um áframhaldandi endurbyggingu á húsnæði þar sem gert er ráð fyrir að skóli sá sem rekinn er á Litla-Hrauni fái loks viðunandi húsnæði.
    Þá má nefna að allt viðhald, sérstaklega í Hegningarhúsinu, hefur verið stóraukið og á þessu ári verður loftræstikerfi í fangelsinu við Síðumúla endurnýjað. Þá hefur verið unnið að því að auka og bæta aðstöðu fanga til tómstundaiðju.
    Þetta eru allt atriði sem til þess eru fallin að bæta aðstöðu og aðbúnað fanga. Ég á eftir að svara um helmingi fyrirspurna, en það tekur ekki langan tíma, hæstv. forseti.
    Í fjórða og fimmta lagi er spurt: ,,Hefur verið fundið fangelsishúsnæði í stað Hegningarhússins við Skólavörðustíg? Ef svo er, hvenær verður flutt í það húsnæði?`` Það hefur ekki verið fundið nýtt húsnæði í stað Hegningarhússins við Skólavörðustíg. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á að ég óskaði eftir því við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár að heimild væri sett í þau til að kaupa nýtt húsnæði í þessu skyni. Málið var ekki afgreitt en við 3. umr. um fjárlög sagði hv. formaður fjvn. m.a. um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þá eru einnig vissulega ýmis mál sem hefðu þurft betri skoðun hjá fjvn. en tími vannst til. Þar má nefna málefni fangahúss í Reykjavík. Komið hefur fram í blöðum við hvers konar vandkvæði þar er að etja og hefur hæstv. dómsmrh. lýst áhuga sínum á að skoða með hvaða hætti væri hægt að taka þar á málum til lausnar. Erindi frá hæstv. ráðherra barst fjvn., en nokkuð seint þannig að nefndin hafði ekki tíma til þess að skoða það erindi vel.`` Hér á hv. formaður fjvn. vafalaust við sérstakt erindi sem barst í desemberbyrjun, en annað erindi hafði komið við fjárlagagerðina eins og raunar mun hafa verið um árabil. Síðan segir hv. formaður: ,,Nefndin mun hins vegar að sjálfsögðu, þó að hún geri ekki tillögu um lausn málsins að þessu sinni, vera fús til að skoða málið með dómsmrh. áfram á næsta ári [þ.e. 1990].``
    Í trausti þessara orða formanns fjvn. við fjárlagaafgreiðsluna hefur verið unnið að því að leita lausnar á þessu máli en endanleg lausn er ekki fundin enn.
    Í sjötta lagi er spurt: ,,Hvaða úrbætur hafa verið gerðar á fangelsishúsnæðinu að Litla-Hrauni? Hvaða úrbætur eru fyrirhugaðar þar?`` Í svari við þriðju spurningu hef ég rakið nokkur atriði sem varða úrbætur á Litla-Hrauni. Það sem fram undan er þar er að bæta vinnuaðstöðu fyrir fanga, eldhús og mötuneyti, aðstöðu til tómstunda, en það sem þó er e.t.v. stærst er að taka ákvörðun um hvort og með hvaða hætti unnt er að nota áfram klefa í elsta hluta Litla-Hrauns.
    Í sjöunda lagi er spurt: ,,Hve margir öryggisgæslufangar, sem hafa verið úrskurðaðir

ósakhæfir, eru í fangelsum landsins?`` Í fangelsum landsins eru nú vistaðir þrír aðilar sem dæmdir hafa verið til vistar á viðeigandi hæli.
    Í áttunda lagi er spurt: ,,Hvað hefur verið reynt til að vista þá í viðeigandi stofnun?`` Eins og kunnugt er er ekki til nein sérstök stofnun fyrir þessa aðila, enda má færa rök fyrir því að ekki sé til þess ætlast, heldur að þessir aðilar verði vistaðir á viðeigandi stofnunum sem til eru í landinu. Undanfarin ár hefur ekki tekist að fá þessa aðila vistaða á heilbrigðisstofnunum og fyrir því eru ýmsar ástæður sem ekki verða raktar hér. En frá því að ég kom í dómsmrn. hef ég verið að vinna að viðunandi lausn þessara mála, m.a. í samvinnu við hæstv. heilbrrh. Á þessu stigi liggur ekki fyrir með hvaða hætti unnt er að leysa málið, en ég hef fulla ástæðu til að ætla að á næstu mánuðum finnist viðunandi lausn á málinu.