Félagslegar aðgerðir fyrir fanga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Vegna þessara seinustu orða hv. 6. þm. Reykv. vil ég taka það fram að ég er sammála því að það vantar að móta ákveðna stefnu í þessum efnum og það var mér fullkomlega ljóst þegar ég kom til starfa í dómsmrn. á sl. hausti. Þess vegna var það mitt fyrsta verk að skipa, það var að vísu ekki fjölmenn nefnd, þriggja manna nefnd sem var raunar undir forustu Haralds Johannessen sem hér var nefndur fyrr í umræðunum, forstjóra Fangelsismálastofnunar, um eitt ákveðið atriði í þessu efni. Sú nefnd vann mjög hratt og skilaði áliti á fyrstu dögum í desember. Í framhaldi af því fékkst samþykkt í fjvn., síðan hér í þinginu, um 27 millj. kr. sérstakt framlag, að vísu tvískipt, í þessu efni sem annars vegar var vegna öryggisgæslumanna og hins vegar vegna ungra fíkniefnaneytenda sem eru fangar og þess hvernig ætti að taka sérstaklega á þeirra málum. Þarna var ég í rauninni að reyna að leggja grunn að nýrri stefnumótun í þessu efni og held að hún sé fyllilega tímabær.