Persónuafsláttur látins maka
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu er þannig vaxið að það er afskaplega skiljanlegt að það skuli vera rætt hér og komist að niðurstöðu um það því að eins og nú háttar skiptir miklu í þessu sambandi hvenær fólk deyr, hvort það deyr snemma eða seint á árinu, en það hlýtur að vera hlutverk okkar á löggjafarþinginu að gera ráðstafanir til þess að jafnræði ríki í skattamálum fyrir þá sem eftir lifa.
    Ég tók því miður ekki eftir þessari fsp. sem lögð hefur verið hér fram fyrr en nú en fyrir fáeinum vikum hafði ég lagt drög að því að samið yrði frv. um þetta mál og það er tilbúið en hefur ekki verið lagt fram. Ég fagna því að hæstv. ráðherra segir hér að ástæða sé til þess að breyta lögum og jafnvel vinna að frumvarpsgerð og ég óska þá eftir því a.m.k. að fá að sjá það til þess að kanna hvort það verði í samræmi við hugmyndir okkar sem höfum nokkuð hugsað um þetta mál sem felst í þessum lagagreinum báðum, annars vegar greininni um réttindi eftirlifandi maka og hins vegar almennu ívilnunargreininni sem vitnað var til hér.
    Ég vil aðeins, virðulegur forseti, og lýk nú máli mínu, þakka það að athygli skuli vera vakin á þessu máli og vonast til þess að hv. Alþingi geti á þessu þingi afgreitt lög sem verði á þann veg að jafnræði ríki þegar um aðstæður er að ræða eins og hér er verið að tala um.