Persónuafsláttur látins maka
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka fjmrh. fyrir svar hans og tek undir það að hér verði lagt fram frv. á þessu þingi og það fái hraða afgreiðslu til lagfæringar á þessum málum. Ég vil hins vegar aðeins minnast á það í þessu sambandi, vegna þess að hann minntist hér á 66. gr. laganna, um það að eftirlifandi maki geti sótt um ívilnanir vegna dauða maka síns, að mjög fáir hafa notfært sér þetta. Og ekki hafa allir áttað sig á að þessi grein er til. Þar að auki er ekki ljóst hver sú ívilnun er í hvert skipti og væri fróðlegt að fá að vita hver vinnureglan er í þessu sambandi. Betra væri að afdráttarlaus regla væri í lögunum, að ekki þyrfti að sækja um slíka ívilnun því að það er oft erfitt hjá fólki sem hefur misst maka.