Olíuhöfn
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Spurt er hvort áætlanir séu uppi um að gera nýja olíuhöfn á Íslandi til að taka á móti ört stækkandi olíuskipum. Því er til að svara að það hefur staðið yfir allveruleg uppbygging á aðstöðu hér í landinu til að taka á móti olíu eða eldsneyti, fyrst og fremst hér í Reykjavíkurhöfn þar sem yfirgnæfandi meiri hluti olíu landsmanna kemur á land eða um 80--90% að mér er tjáð. Þær breytingar hafa þar orðið á helstar að löndunaraðstaða í Skerjafirði hefur verið lögð niður en mikil uppbygging átt sér stað sérstaklega í Örfirisey og er þeirri uppbyggingu nú langleiðina lokið. Aðstaðan er þannig að olíunni er dælt í land af legu þar sem skipin liggja. Það er því ekki í raun og veru um það að ræða að hafnarrými eða viðlegurými takmarki í sjálfu sér stærð skipanna sem hingað geta komið til losunar vegna þess að þau liggja, eins og ég hygg að Reykvíkingar þekki af eigin raun, við bólfæri út af Örfirisey og inni við Laugarnestanga.
    Það er einnig að því að hyggja að það sem frekar takmarkar stærð olíuskipa sem hingað geta komið með olíufarma er ekki hafnaraðstaða heldur tankarými. Það er í raun og veru meira spurning um það hversu stórum förmum er hægt að taka á móti í senn. Spurningin er frekar um það hversu mikið tankarými er fyrir hendi í senn í hverju einstöku tilviki.
    Eftir því sem fróðir menn hafa tjáð mér, að vísu ekki Sovétmenn en fróðir menn hér innan lands, þá telja þeir ekki að sérstakra vandkvæða sé að vænta af þessum sökum og sú uppbygging sem staðið hafi yfir eigi að verða fullnægjandi hvað þarfir okkar landsmanna fyrir móttöku á eldsneyti snertir, a.m.k. í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er að vísu rétt sem fram kom í máli fyrirspyrjanda að olíuskipaflotinn er að stækka. Það má deila um það hvort þar sé um mjög öra stækkun að ræða því að hann er af mjög blandaðri stærð þó að mörg nýrri skipin séu stór. Það er samt sem áður ekki mat þeirra manna sem
fyrir uppbyggingu og endurskipulagningu þessara mála hafa staðið hér að ástæða sé til að ætla að við lendum í vandræðum af þessum sökum á næstu árum.
    Það er líka rétt að geta þess að olíumagnið eða eldsneytismagnið sem hingað er flutt er ekki vaxandi að neinu ráði og hefur ekki verið um sinn. Kemur þar sérstaklega inn í að olíunotkun til húshitunar hefur verið að dragast saman jafnt og þétt alveg fram á hin síðustu ár og það hefur vegið upp á móti vaxandi notkun á öðrum sviðum. Magnið hefur því ekki breyst ýkja mikið milli ára.
    Af þessum sökum, virðulegu forseti, held ég að svarið við fyrirspurninni hljóti að verða að ekki séu uppi sérstakar áætlanir um viðbrögð umfram þær aðgerðir sem í gangi eru og hafa verið á þessu sviði.