Olíuhöfn
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Frú forseti. Ég vek athygli á því að það er algjörlega óþarft að leggja í fjárfestingar vegna nýrrar olíuhafnar. Hún er til. Það er til fullkomin olíuhöfn í Helguvík sem tekur stærstu skip, tekur skip allt að 45 þús. tonnum, og það er fyllsta leyfi fyrir því að nota þá höfn eins og Íslendingar vilja. Ég á von á því einnig að verði það gert muni það flýta fyrir lagningu nýrrar brautar milli Keflavíkur og Reykjavíkur.
    Hvað varðar tankarými má sjálfsagt bæta við þar, en þar er fyrir mikið tankarými. Ég held að þetta sé ekki neitt vandamál. Ef það verður vandamál hér í Reykjavík á aðeins að flytja það til þeirrar olíuhafnar sem er stærst í landinu, best búin og við höfum fyllsta leyfi til þess að nýta eins og okkur sýnist.