Olíuhöfn
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir ágætt svar, en ég held að því megi bæta hér við að það hefur orðið töluverð breyting á olíuflutningum til landsins að því leyti til að nútímaolíuskip eru miklu hraðskreiðari og búin öflugum dælum sem þýðir að hægt er að taka olíuna oftar til landsins og ekki þarf að liggja með eins miklar birgðir og oft áður, þannig að sú olíuhöfn sem hér er við Örfirisey er alveg fullnægjandi fyrir allt landið. Ég tel líka að ef við lítum á notkunina hér innan lands sem hefur ekki vaxið á síðustu árum sé sú aðstaða sem er í dag til að taka á móti olíu algjörlega fullnægjandi.
    Þar að auki hefur bæst við fullkomin olíuhöfn í Helguvík, eins og hv. 4. þm. Reykn. kom hér inn á, og það er hægt að nota hana ef á þyrfti að halda sem er ekki sýnilegt í náinni framtíð.