Norræna sjóréttarstofnunin
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég flyt hér fyrir hönd menntmrh. svör við fyrirspurn hv. þm. og í raun og veru í senn svar við tveimur fyrirspurnum, 10. og 11. fyrirspurn á dagskrá fundarins og ég vildi gjarnan mælast til þess að hæstv. forseti sýndi mér umburðarlyndi hvað tíma snertir er ég flyt svar við báðum fyrirspurnunum í einu lagi.
    Örstutt fyrst um tildrög þessa máls sem fyrirspurnin lýtur að. Í febrúar í fyrra ákvað embættismannanefnd um norrænt menningarmálasamstarf sem skipuð er fulltrúum menntamálaráðuneytanna á Norðurlöndum að skipa vinnunefnd til að fara yfir samstarfsverkefni á gildissviði norræna menningarmálasamningsins, einkum þær stofnanir sem kostaðar eru af menningarmálahluta norrænu samstarfsfjárlaganna. Markmið þessarar endurskoðunar skyldi vera að leggja fram tillögur um hugsanlega niðurfellingu viðfangsefna, breytingar á tilhögun fjármögnunar og forgangsröðun í því skyni að losa um ráðstöfunarfé og skapa aukið svigrúm til að kosta ný og brýn verkefni. Voru þá sérstaklega höfð í huga þau viðfangsefni sem lögð er áhersla á í framkvæmdaáætlun um norrænt menningarsamstarf sem ráðherranefnd Norðurlanda samþykkti árið 1988 eftir umfjöllun í Norðurlandaráði.
    Fyrirsjáanlegt er að ýmis þeirra samstarfsverkefna munu krefjast umtalsverðra fjárveitinga á næstu árum. Þar má t.d. nefna Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn, aukið samstarf um vísindamenntun, styrkjakerfi Nordplus sem á að greiða fyrir nemenda- og kennaraskiptum milli norrænna háskóla og áætlun um aukna tungumálasamvinnu. Þar sem raunaukningu fjárveitinga á norrænu samstarfsfjárlögunum eru eðlilega takmörk sett þótti blasa við að fjármögnun nýrra verkefna yrði nokkrum erfiðleikum háð m.a. vegna þess hversu mikill hluti þess fjár sem rennur til norræns samstarfs á sviði vísinda- og menningarmála er bundinn við rekstur fastastofnana. Vinnunefndin sem áður
getur taldi koma til greina að fækka þessum föstu samstarfsstofnunum á sviði vísinda með hliðsjón af því að forsendur höfðu breyst frá því að sumar þeirra voru settar á laggirnar. M.a. hefði í ýmsum tilvikum þeim fræðum sem stofnanirnar eru helgaðar vaxið fiskur um hrygg við háskóla einstakra landa og allar horfur á að eðlilegt og nauðsynlegt samstarf gæti haldið áfram að þróast án milligöngu sérstakra norrænna stofnana. Með því að leggja niður stofnanirnar og losa þannig um fastakostnað ætti að vera unnt að auka ráðstöfunarfé til verkefnasamstarfs á viðkomandi fræðasviðum.
    Vinnunefndin skilaði áliti í nóvember sl. Tillögur hennar um aðgerðir til að auka fjárveitingasvigrúm er þríþættar.
    Í fyrsta lagi er lagt til að eftirtaldar fjórar norrænar stofnanir verði lagðar niður: Norræna þjóðfræðistofnunin í Abo í Finnlandi, norræn stofnun

í Asíufræðum í Kaupmannahöfn, norræn stofnun í skipulagsfræðum í Stokkhólmi og norræna sjóréttarstofnunin í Osló sem hv. fyrirspyrjandi spyr um.
    Í öðru lagi lagði vinnunefndin til að átta fastar samstarfsnefndir á afmörkuðum vísindasviðum verði lagðar niður.
    Í þriðja lagi að þeim samstarfsstofnunum sem eftir standa verði gert kleift að leita aukinnar hagræðingar í starfi með minnkun fjárframlaga til þeirra sem nemur 10% á tveimur árum eftir nánari athugun á forsendum hjá hverri einstakri stofnun.
    Álitsgerð vinnunefndarinnar var lögð fyrir fund ráðherranefndar Norðurlanda 27. nóv. sl. Þar var ákveðið að senda álitsgerðina til menningarmálanefndar Norðurlandaráðs og taka fram að ráðherranefndin stefndi að því að hafa hliðsjón af tillögunum við undirbúning samstarfsfjárlaganna fyrir árið 1991. Engin afstaða var að svo stöddu tekin til einstakra tillagna, til að mynda þeirra að leggja niður einstakar norrænar stofnanir. Álit menningarmálanefndar Norðurlandaráðs um framangreindar tillögur liggur ekki fyrir enn en þess er vænst að málið verði til umræðu í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík um næstu mánaðamót. Ekki er því tímabært að marka afstöðu til hugmynda um breytingar á stöðu einstakra samstarfsstofnana fyrr en gefist hefur kostur á að meta þau sjónarmið sem vænta má að fram komi á þeim vettvangi. En staðgengill menntmrh. vill hins vegar taka fram fyrir sitt leyti að hann telur að sé ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að standa fremur vörð um einhverja af þeim stofnunum sem vinnunefndin hefur gert tillögur um eða hefur haft uppi hugmyndir um að leggja skyldi niður, þá sé það einmitt sú stofnun sem hv. fyrirspyrjandi spyr hér um, þ.e. Norræna sjóréttarstofnunin í Osló, af auðskiljanlegum ástæðum.