Norræna þjóðfræðistofnunin
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):
    Frú forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn sem svo hljóðar:
    ,,Hver er afstaða menntmrh. til tillögu á norrænum vettvangi um að leggja niður Norrænu þjóðfræðistofnunina?``
    Stofnunin stendur andspænis hugsanlegum örlögum af því tagi sem við fjölluðum um áðan þegar við töluðum um Norrænu sjóréttarstofnunina, en hér erum við að fjalla um Norrænu þjóðfræðistofnunina sem hét upphaflega og reyndar enn Nordisk Institut för folkdiktning. Hún vinnur að rannsóknum og kynningu á norrænum þjóðháttum, þjóðkvæðum, þjóðlögum og yfirleitt því sem kalla má hluta af hinni norrænu menningarhefð sem sameinar þessar þjóðir og er grundvöllurinn undir öllu norrænu menningarsamstarfi. Ástæða þess að norrænar þjóðir telja sig eiga svo margt sameiginlegt er ekki efnahagslegir hagsmunir, eins og nú gildir víða um veröldina, heldur arfleifð á menningarsviðinu. Og þessi stofnun er næstelsta stofnunin á sviði sameiginlegra norrænna rannsókna, er orðin 30 ára gömul, og hefur unnið mikið og merkilegt starf. Hvað sem líður efnahagsmálum okkar teljum við okkur ekki hafa ráð á því að leggja til hliðar ræktina við menningarlega, sameiginlega arfleið. Þessi stofnun vinnur einmitt að því að rækta og rannsaka hina alþýðlegu menningararfleifð. Hún sameinar vísindamenn á þessu sviði og veitir tækifæri til starfa sem ella væri ef til vill ekki tækifæri til að sinna.
    Ég vænti þess að hæstv. ráðherra upplýsi um afstöðu hæstv. menntmrh. og gjarnan sína eigin og ég tala nú ekki um afstöðu ríkisstjórnarinnar . Það verður tekin afstaða til þessa máls á ráðherrafundi í næstu viku á Norðurlandaráðsþingi og í framhaldi af því á ráðherrafundi.