Lögregluvarðstofa í Stykkishólmi
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. beinir til mín á þskj. 595 fsp. um nýja lögregluvarðstofu í Stykkishólmi. Fsp. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hvaðan kemur það 100 fermetra einingahús sem fyrirhugað er samkvæmt blaðafregnum 10. febr. sl. að reisa fyrir lögregluna í Stykkishólmi? Var leitað tilboða hjá framleiðendum einingahúsa og ef svo er, hjá hverjum og hvert þeirra var hagstæðast? Hver er áætlaður heildarkostnaður við hina nýju lögregluvarðstofu í Stykkishólmi?``
    Eins og hv. þm. er vitaskuld kunnugt er ekki fjárveiting á fjárlögum 1990 til byggingar lögreglustöðvar í Stykkishólmi. Af því leiðir að ekki er önnur leið til lausnar í þessu efni en leiga húsnæðis, eins og raunar hefur komið fram fyrr hér á Alþingi í umræðum um þetta mál.
    Nokkur hús hafa komið til álita í þessu sambandi en ekkert hefur verið talið nægilega gott til að viðunandi væri. Einn kostur sem til álita hefur komið er leiga á færanlegu einingahúsi sem hugsanlega gæti nýst til bráðabirgða fyrir lögregluna í Stykkishólmi. Þennan kost, sem einingahúsaverksmiðja á Selfossi hefur boðið fram, er nú verið að athuga nánar og möguleika á að hrinda honum í framkvæmd. Af eðlilegum ástæðum hefur tilboða ekki verið leitað í þessu sambandi og kostnaður þessu samfara liggur heldur ekki fyrir.