Lögregluvarðstofa í Stykkishólmi
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Mér var að sjálfsögðu ljóst að ekki væri fjárveiting til að fara út í byggingar. Það eru nokkur hús laus í Stykkishólmi nú þegar og nokkur sem henta vel undir þessa starfsemi, að mati bæjarstjórans. Bæjarstjórnin þar er hrædd um að með því að fara þá leið sem nú er verið að fara þýði það verulega frestun á uppbyggingu stjórnsýslustöðvar og lögreglustöðvar í Stykkishólmi.
    Ég get hins vegar alls ekki séð neitt eðlilegt við það að leita ekki tilboða annars staðar. Á staðnum eru tvö fyrirtæki sem hafa m.a. þá starfsemi að reisa einingahús. Þeim er einfaldlega ekki gefinn kostur á að bjóða í verkið og bjóða þá jafnvel sömu skilmála og framleiðandinn á Selfossi gerir. Ég verð að segja það að mér finnst, svo að maður segi nú ekki of mikið, lykta verulega af þessu. Og ég óska eftir skýringum á því hvers vegna heimamönnum er ekki gefinn kostur á að bjóða a.m.k. sömu kjör, alla vega að leita eftir því hvað þeir hafa að bjóða. Ég held ég þurfi ekkert að minna á það í þessu sambandi að lyktin er náttúrlega vegna þess að hæstv. ráðherra kemur frá Selfossi og ég tel að hann verði að gera grein fyrir því hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu að eðlilegt sé að leita aðeins í sinn heimabæ eftir tilboðum.