Lögregluvarðstofa í Stykkishólmi
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Það er ákaflega mikilvægt að menn geri sér grein fyrir aðalatriði þessa máls sem er að tilboða hefur ekki verið leitað. ( IBA: Á Selfossi.) Tilboða hefur ekki verið leitað. Það kom fram í svari mínu hér áðan að viðkomandi aðili hefur boðið fram þetta húsnæði til leigu ef það getur hentað og það er það sem verið er að athuga ásamt öðrum hugsanlegum leigukostum. En svona til að fara yfir þá staðhæfingu hv. fyrirspyrjanda um að nægilegt framboð væri af húsnæði til leigu eru mér vitanlega fjórir möguleikar sem hafa verið athugaðir.
    Sá fyrsti er kjallari í húsnæði sveitarfélagsins í Stykkishólmi sem ég taldi raunar að væri í lagi í þessu sambandi við fyrri umræðu hér í þinginu. Komið hefur í ljós að það húsnæði dugar ekki og ástæðan er sú að Vinnueftirlitið samþykkir ekki það húsnæði vegna lofthæðar. Að vísu hefur tannlæknir verið þar til húsa undanfarin ár, en þessi er ástæðan.
    Annar kosturinn er íbúðarhús sem hefur verið boðið fram til sölu en það dugar ekki í þessu sambandi af þeim ástæðum sem hér hafa fyrr verið raktar.
    Í þriðja lagi hefur íbúðarhúsnæði verið boðið fram til leigu en það er hálfinnréttað og fjármagn ekki fyrir hendi til þess að leggja í þann kostnað eins og hér hefur fyrr fram komið.
    Í fjórða lagi hefur verið boðið fram leiguhúsnæði í sláturhúsi staðarins til haustsins. Það er varla boðlegur kostur, en vissulega þó einn af þeim sem eru í athugun ásamt þessum sem ég fyrr greindi frá.
    En hvaðan einingahús kæmi, ef sá kostur verður framkvæmanlegur, get ég ekki séð að skipti neinu meginmáli í þessu efni frekar en öðrum.