Innflutningur á grænmeti og öðrum matvælum
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp):
    Herra forseti. Það hlýtur að vera tímabært hjá forsetum að meta það hvort þeir vilji beita sér fyrir tillöguflutningi á Alþingi um breytingar á þingsköpum eða hvort þeir ætli að koma einhverju vitrænu formi á þessar fyrirspurnir. Mér er ljóst að lengi er hægt að teygja lopann í frásögn eins og hér var gert áðan. Þegar menn telja svo að líka þurfi að hella sér yfir þingmenn ef þeir eru ekki á sama máli allir, því að nú er það svo að þó að einn þingmaður komi með fyrirspurn sannar það ekkert um afstöðu hinna sextíu og tveggja.
    Ég hef aldrei upplifað það áður að í fyrirspurnatíma teldi Hollustuvernd ríkisins að hún væri komin á það eftirlitsstig að hún ætti að hella svívirðingum yfir þingmenn, ég hef aldrei upplifað það áður. Og ég verð bara að segja eins og er, megum við búast við því að forseti veiti sérstaklega tíma til að messa yfir þingmönnum í fyrirspurnatíma langt fram yfir tímann, að lesa upp slíkar svívirðingar? Mér finnst þetta alveg makalaust, ég segi það eins og er. Og ég tek því ekki þegjandi þegar ríkisstofnun, sem náttúrlega hugsar ekki frekar en aðrar stofnanir, einstakir starfsmenn stofnunarinnar hugsa að sjálfsögðu þar eins og annars staðar, þegar þeir telja sig vera einhverja sérstaka hugsuði fyrir stofnun sem starfar samkvæmt lögum. Þessi stofnun er ekki hugarsmíð þeirra. Hún starfar eftir lögum, lögum sem samþykkt voru á Alþingi. En það er eins og hún hafi gleymt því að hún starfi eftir þeim heldur er þetta komið á það stig að þeir eru farnir að hugsa sjálfsætt, stofnunin er farin að hugsa sjálfstætt. Og stofnunin hefur álit á þessu eða hinu. Stofnunin talar um hvernig þingmenn bregðast skyldum sínum hér í þinginu. Einn segi þetta og annar hitt, það sé ekkert samræmi. Er einhvers staðar skráð í lögum að það eigi að vera samræmi á skoðunum þingmanna? Mér er spurn.
    Ég held það hljóti að vera lágmark að ráðherrar segi sínum skríbentum að þeir fái ákveðinn tíma og ætlist til þess að sá sem skrifar lesi það inn á segulband. Þá geta þeir tímamælt það þannig að þeir þurfi ekki í ofanálag að lesa hér í belg og biðu og verða sér hreinlega til skammar í framsögn miðað við eðlilega meðferð á íslenskri tungu. Mér er ljóst að það er erfið þraut hjá þessum mönnum að stytta mál sitt.
    Það er sagt að einu sinni hafi konungur falið ráðgjöfum sínum að útbúa fyrir sig mannkynssögu sem hann ætlaði að kynna sér áður en hann dæi. Þeir komu með ritverk upp á margar bækur. Hann gaf fyrirmæli um að stytta þetta því að sér mundi ekki endast ævin til að lesa. Þegar hann lá banaleguna komu þeir með þetta stytt, mig minnir að þá hafi þetta verið orðin ein bók. En hann sá fram á að enn fengi hann ekki notið þess að kynna sér mannkynssöguna áður en hann yrði allur. Þá var það einn af ráðgjöfunum sem leysti þetta mál með því að segja einfaldlega að mannkynssagan væri falin í þeim sannindum að mennirnir fæðast, þjást og deyja. Og

það hlýtur að vera hægt að setja þessa blessaða menn í kennslustund í stílagerð þannig að þeir nái valdi á því efni sem þeim er ætlað að svara.