Fóstureyðingar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég tel að æðsta skylda Alþingis í öllum málum sé að verja lífið og hvarvetna þar sem líf og dauði takast á á Alþingi að leggjast á árar með lífinu. Í mínum huga er það engin spurning að fóstureyðing er ekki læknisaðgerð. Þó hún sé gerð á spítala og þó hún sé unnin af lækni. Hún er andstæðan. Hún lýtur að því að taka líf en ekki að vernda það eða hlúa að því á nokkurn hátt. En samt sem áður eru fóstureyðingar greiddar úr sameiginlegum sjóðum okkar eins og um hverja aðra læknisaðgerð væri að ræða. Þess vegna spyr ég hvað það kosti þjóðfélagið í beinhörðum peningum að framkvæma fóstureyðingu, fyrir utan þann skaða, það tjón sem þjóðfélagið verður fyrir að fá ekki að taka á móti þessum litla varnarlausa þegni heldur sé honum eytt í móðurkviði.