Norræna ráðherranefndin 1989-1990
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. hagstofuráðherra fyrir þá skýrslu sem hann hefur mælt fyrir. Ástæðan til að ég tek þátt í þessari umræðu er sú að ég vildi bæta örfáum orðum inn í þá umræðu sem hér hefur verið og eins í framhaldi af fyrirspurnum í morgun um niðurskurð og sparnað í menningarmálageiranum. Ég tók til máls í stuttum athugasemdatíma í morgun um þetta efni en ég vildi bæta við örfáum orðum.
    Afstaða mín sem ég hef flutt í menningarmálanefndinni í þessum efnum er sú að ekki sé ástæða til að amast við endurskoðun sem verður til þess að auka sveigjanleika í fjárframlögum til menningarmálageirans, afnema sjálfvirkni sem hefur verið lýst hér. Eigi að síður hef ég lýst ströngum fyrirvörum um fjórar þær stofnanir sem ætlast er til að lagðar verði niður en ekki verið ákvörðun tekin um eins og hér hefur komið fram.
    Ég tel grundvallaratriði að það fjármagn sem sparast við þessa endurskoðun og breytingar haldist inni í menningarmálageiranum til að auka þar við verkefni sem mönnum finnst vera aðkallandi á hverjum tíma og ég vil undirstrika þetta alveg sérstaklega í sambandi við umræðuna um þessa skýrslu. Ég tel að samstarf Norðurlandanna hvíli á samstarfi í menningarmálum öðru fremur. Það hefur áreiðanlega verið lík menning og líkur hugsunarháttur sem kom þessu samstarfi af stað upphaflega og það er grundvöllurinn að norrænu samstarfi fremur öllu öðru, samstarf í menningarmálum.
    Að öðru leyti hef ég engu við þessa umræðu að bæta en ég vildi koma þessu á framfæri vegna þess að tími var knappur í fyrirspurnatíma fyrr í morgun til að ræða þessi mál. Ég þakka svo aftur þessa skýrslu sem hér hefur verið lögð fram.