Efling löggæslu
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka flm. fyrir flutning þessarar þáltill. og þann áhuga sem þeir þar með sýna á þessum mjög svo mikilsverða málaflokki sem hér er um að ræða. Það er alveg rétt að t.d. fjölgun mannafla í lögregluliði hér Reykjavíkursvæðinu á undanförnum árum hefur verið tiltölulega lítil. Ef tillit er tekið til annarrar fjölgunar og aukningar í umfangi þessara verkefna hér á svæðinu er það alveg víst að þetta hefur verið lítil fjölgun. Þar nægir að minna á það að á árunum 1983--1986 fjölgar einungis um fjögur stöðugildi hér á Reykjavíkursvæðinu og raunar um eitt í viðbót árið 1989. Hins vegar verður að halda því til haga að við afgreiðslu fjárlaganna núna fyrir árið 1990 breytti sannarlega um til hins betra í þessu efni. Þá var í fyrsta lagi í fjárlagafrv. lögð til fjölgun um sex stöðugildi, en til viðbótar í meðferð málsins í fjvn. var bætt við tíu stöðugildum og enn tíu stöðugildum eða ársverkum í afleysingastöðum þannig að fjölgun á þessum vettvangi á árinu 1990 verður um 26 stöðugildi miðað við aðeins fimm á árunum 1983--1989. Þarna er vissulega um að ræða verulegt spor í rétta átt og vil ég þó síst undan draga að það er fráleitt nóg að gert því það er meira en mannaflaaukningin ein sem skiptir máli. Það eru ekki síður starfshættirnir sem skipta máli. Og ég vil taka sérstaklega undir það sem kom fram í máli frsm. hér áðan að auðvitað eru það forvarnirnar og samstarf margra aðila á þessum vettvangi sem skiptir meginmáli um það hvernig framvindan verður til bóta á næstu mánuðum og árum. Það eru afbrotavarnir almennt sem eru verkefnið og þar þýðir ekki annað en sækja fram á mörgum sviðum í senn ef árangurs á að vænta.
    Ég tel að á Reykjavíkursvæðinu bryddi verulega á nýjum vinnubrögðum sem horfi til heilla. Þar á ég við það samstarf sem þegar hefur tekist með lögreglustjóraembættinu og borgaryfirvöldum hér í Reykjavík. Undirbúningsnefnd
hefur undanfarið unnið að því samstarfi. Þetta er mjög víðfeðmt samstarf og kemur í rauninni víða við. Ég er hér fyrir framan mig með skrá yfir þá aðila sem þeir menn sem að þessu hafa unnið á undanförnum mánuðum telja að þyrftu að koma inn í þetta samstarf. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að fá að lesa þessa skrá í fljótheitum. Það sýnir í örfáum orðum hversu umfangið er mikið. Fulltrúarnir sem mynduðu þennan starfshóp töldu að leita ætti til eftirtalinna aðila í þessu samstarfi:
     1. Félagsmálastofnunar Reykjavíkur, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, þ.e. alls þessa svæðis.
     2. Íþrótta- og tómstundaráðs.
     3. Æskulýðsráðs.
     4. Rauða krossins.
     5. Borgarstjórnar.
     6. Barnaverndarnefndar.
     7. Barnaverndarráðs.

     8. Samtakanna Vímulaus æska.
     9. Kirkjunnar.
    10. Samtakanna Gamli miðbærinn.
    11. Fræðluskrifstofu Reykjavíkur.
    12. Félagssamtakanna Samfok.
    13. Slysadeildar.
    14. Slökkviliðs Reykjavíkur.
    15. Strætisvagna Reykjavíkur.
    16. Rannsóknarlögreglu ríkisins.
    17. Fangelsismálastofnunar ríkisins.
    18. Menntamálaráðuneytisins.
    19. Dómsmálaráðuneytisins.
    20. Félagsmálaráðuneytisins.
    Þetta sýnir hversu gífurlega umfangsmikið samstarf af þessu tagi þarf að vera til þess að árangurs geti verið að vænta.
    Ég vil ekki lengja þessa umræðu en aðeins geta þess hér í framhjáhlaupi að af hálfu dómsmrn. er í þessu sambandi verið að undirbúa að koma á svokölluðum degi lögreglunnar sem er hugsaður þannig að einn ákveðinn dag á ári færi fram kynning á störfum, starfsháttum og aðstæðum lögreglunnar um allt land, ekki síst á þéttbýlissvæðum, til að upplýsa almenning betur um það sem fram fer á vegum þessara aðila og hvernig mál horfa. Það leiðir hugann ekki síst að húsnæðismálum lögreglunnar. Ég tel að þar sé fráleitt búið að gera hlutum skil svo að vel sé, eins og raunar hefur komið fram í umræðum hér fyrr í dag, á fyrri fundi sameinaðs Alþingis.
    Í lokin langar mig að nefna að fyrirhuguð er á vegum dómsmrn. og yfirstjórnar lögreglumála ráðstefna um fíkniefnamál. Þar geri ég ráð fyrir að verði fjallað sérstaklega um þann vágest sem mestur er á þessum vettvangi hér á landi sem annars staðar í dag.
    Aðeins í lokin vil ég geta þess að í undirbúningi er samstarf löggæsluaðila og ýmissa annarra sem hafa annast og ætla að annast mótshald ýmiss konar víða
um land á komandi sumri til að undirbúa betur og vera í betri viðbragðsstöðu en verið hefur svo mótshaldið megi fara fram í sem bestu lagi sem kostur er eins og víða er út um land á sumrin.