Efling löggæslu
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Ég er einn af flm. þessarar till. til þál. og kann því betur við að láta örfá orð falla af minni hálfu þó að gerð hafi verið rækileg grein fyrir tillögunni af hálfu 1. flm. og einnig hafi komið fram upplýsingar af hálfu hæstv. dómsmrh. Tillaga þessi fjallar með öðrum orðum um að efla löggæslu í landinu og dómsmrh. er samkvæmt henni falið að grípa til ráðstafana sem fela það í sér.
    Það er deginum ljósara að hlutverk lögreglu í lýðræðisríki er mjög mikilvægt og ekki sama hvernig á því er haldið. Það er ekki einungis að halda uppi lögum og reglu. Það er einnig að greiða götu manna þar sem það á við. Það atriði gleymist oft, að lögreglumenn eru almenningi til aðstoðar, til leiðbeininga og þar á almenningur að eiga greiðan aðgang að upplýsingum og aðstoð sem veitt er af fúsum vilja. Þess vegna er menntun löggæslumanna mjög mikilvæg og nauðsynleg. Því ber að fagna að nú hefur verið komið á fót sérstökum lögregluskóla. Að vísu á lögregluskólinn sér langan aðdraganda. En sem betur fer hefur honum verið að vaxa fiskur um hrygg á undanförnum áratugum og er nú orðin merk og mikilvæg stofnun sem lýtur forustu sérstaks skólastjóra.
    En hlutverk lögreglu er einnig að stemma stigu við ólögmætri hegðun og vinna að uppljóstran brota sem framin eru og vera dómara til aðstoðar í hvívetna. Þess vegna þurfa lögreglumenn að kunna góð skil á þeirri löggjöf sem lýtur að þeirra starfi og hafa í huga að ábyrgð sú sem fylgir starfi þeirra er mjög rík.
    Það er hægt að leggja lögreglumönnum margar lífsreglur ýmist í löngu máli eða fáum orðum. Ég kom einu sinni inn á lögreglustöð í Bandaríkjunum. Þar voru leiðbeiningar hengdar upp á vegg í þremur setningum. Ég hygg að þær séu mjög lærdómsríkar þó að fram séu settar í fáum orðum og meitluðu máli. En þær hljóða svo í lauslegri þýðingu. Fyrsta regla til löreglumannsins: Hafðu augun opin. Önnur: Hafðu munninn lokaðan. Þriðja: Haltu skildi þínum hreinum.
    Þó að þessar reglur láti ekki mikið yfir sér hygg ég að þær séu mjög hollar til leiðbeiningar hverjum sem annast löggæslu. En til þess að rækja hlutverkið og skilja þarf bæði menntun og reynslu.
    Það er einkennilegt að þegar menn vilja fara að spara hjá ríki, borg og bæjum virðist mjög snemma koma upp í hug þeirra hvort ekki sé hægt að spara eitthvað í löggæslu. Þetta er þeim mun einkennilegra þar sem við þurfum engu að kosta til landvarna. Við höfum ekki her, erum lausir við herkostnað, látum aðra verja okkur. Landvarnakostnaður okkar er því mjög lítill. Þess vegna hefur mér oft komið í hug hvort við hefðum ekki efni á að gera vel við löggæslu okkar og byggja hana vel upp, bæði til sjós og lands. Ég held að Nordal segi einhvers staðar í sínum miklu og merku skrifum að við séum ekki skyldug til að fara út á vígvöllinn og láta lífið fyrir föðurlandið, en þá megum við heldur ekki gleyma að lifa fyrir það. Við höfum þá fornu reglu við að styðjast að með

lögum skuli land byggja. Ég álít því að þeim aurum sé vel varið sem ganga til þess að byggja upp og kosta og mennta góða löggæslumenn í landinu. Heilbrigð og öflug löggæsla er jafnan einn af hornsteinum lýðræðislegra stjórnarhátta. Þessi staðhæfing stendur enn í fullu gildi. Þess vegna ber okkur að athuga þessi mál vel, efla löggæslu okkar, því að á hana þurfum við að teysta og á henni þurfum við að byggja.