Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Frv. þetta er flutt til þess að efna þau fyrirheit sem ríkisstjórnin hefur gefið í tengslum við kjarasamninga og þurfa lagabreytinga við. Þessi fyrirheit hef ég öll rakið í umræðu í Sþ. skömmu eftir að kjarasamningarnir voru gerðir og skal ég hlaupa hratt yfir sögu, enda eru í þessu fáein atriði sem má segja að séu utan þeirra fyrirheita og ganga aðeins lengra.
    Í sambandi við 1., 2. og 3. gr. er það að segja að þeim er ætlað að tryggja að ellilífeyrisþegar fái hlutdeild í orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fjmrh., dags. 2. febr. 1990.
    Fjórða gr. fjallar um ráðningu starfsmanna ríkisins og er reyndar eftirstöðvar af samningi BSRB og ríkisins frá því í fyrra. Þá var því heitið að skoða mjög vandlega hvernig leidd yrði til lykta deila um réttindi og skyldur og ráðningu mikils fjölda manna sem eru lausráðnir hjá hinum ýmsu ríkisstofnunum. Um það hefur náðst samkomulag og er með þessari grein kveðið á um það hverjir eiga rétt til fastrar ráðningar eftir ákveðinn reynslutíma og eftir að hafa starfað í ár hjá Stjórnarráðinu og sömuleiðis að þeir njóti þá þeirra fríðinda sem ríkisstarfsmenn njóta og þarna er jafnframt greint á milli manna sem eru lausráðnir til sumarleyfa. Þeir njóta að sjálfsögðu ekki sömu fríðinda.
    Þriðji kaflinn, þ.e. 5. og 6. gr., fjallar um tekjustofna sveitarfélaga og varðar álagningu fasteignaskatts á útihús í sveitum. Í samkomulagi við bændur var því heitið af hálfu ríkisstjórnarinnar að álagningarstofn útihúsa í sveitum yrði færður til fyrra horfs en um áramótin síðustu hafði verið ákveðið að hækka allan grundvöll fasteignamats á landsbyggðinni með ákveðnum margföldunarstuðli þannig að hann yrði sambærilegur við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefði valdið mjög mikilli hækkun á fasteignagjöldum
af útihúsum og varð samkomulag um að þar yrði gjaldið lagt á á gamla mátann. Það skal tekið fram að um þetta var haft samráð við samtök sveitarfélaga. Sjötta gr. heimilar hins vegar að fella niður fasteignagjald af útihúsum sem er ekki í notkun eða mjög lítilli notkun en mikið er um slíkt nú eftir að samdráttur hefur orðið mikill í landbúnaði.
    Sjöunda gr. fjallar um heimild til þess að fella niður framreikning á grundvelli landbúnaðarvöruverðs á verði til framleiðenda, en í gildandi lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru er gert ráð fyrir að grundvöllurinn sé ákveðinn til tveggja ára í senn og síðan framreiknaður og það gerist sjálfkrafa. Bændur gerðu hins vegar samkomulag um að engin hækkun yrði 1. mars og 1. júní. Hins vegar kemur útreikningur grundvallarins 1. sept. til framkvæmda í samræmi við samkomulag Stéttarsambands bænda. Þá er útreikningurinn endurnýjaður. Þessari grein var breytt í meðferð félmn. Nd. Í greininni segir að heimilt sé ,,að fresta`` en í breytingunni er kveðið á

um að þessi útreikningur skuli felldur niður og var það gert með samkomulagi við fulltrúa bænda.
    Fimmti kafli fjallar um hækkun á frítekjumarki svonefndu og er hér í raun gefin heimild til að hafa það misjafnt eftir því hvernig teknanna er aflað. Reyndar er það misjafnt í dag því að tekjur sem aflað er af sparifé eru ekki dregnar frá, koma ekki til frádráttar í greiðslu lífeyrissjóðs, og það var á þeim grundvelli sem aðilar vinnumarkaðarins fóru fram á að frítekjumark, þegar um lífeyrisgreiðslur er að ræða, skyldi hækkað. Samþykkt var að það skuli hækkað 1. júlí í 19.200 kr. og 1. jan. í 21 þús. kr. Það skal hins vegar tekið fram að allt þetta mál er í raun og veru nauðsynlegt að skoða frá grunni og hefur ríkisstjórnin gefið þá yfirlýsingu að hún muni halda áfram athugun á samræmdri skattlagningu allra slíkra tekna, þar með talið sparifjár svo að hér er um bráðabirgðaráðstöfun að ræða þar til slík samræming hefur farið fram.
    Þá fjallar næsti kafli, VI. kafli, um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til þeirra sem atvinnulausir eru í fjóra mánuði eða lengur á 12 mánaða tímabili. Þeir skuli fá viðbótargreiðslu í samræmi við þær láglaunabætur sem samið var um í samningunum. Þar er um að ræða helminginn af greiddum launum og 60 þús. krónum og gætu orðið í þessu tilfelli um það bil 8--9 þús. kr. á hvern mann því að greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði munu nú vera rúmlega 40 þús. kr. Þetta eru greiðslur sem inntar eru af hendi úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hér er eingöngu um að ræða heimild fyrir stjórn sjóðsins að ákveða slíkar greiðslur. Það er dálítið erfitt að áætla hvað þetta getur orðið mikil upphæð. Þó má geta þess að á síðasta ári voru 300 manns taldir atvinnulausir í fjóra mánuði eða lengur. Nú virðist heldur vera að draga úr atvinnuleysi en á þessum grundvelli má ætla að þetta gæti orðið á bilinu 6--8 millj. kr. ef atvinnuleysi helst svipað.
    Sjöundi kafli frv. er langviðamestur og fjallar um breytingu á lögum um ríkisábyrgð á launum. Samkomulag varð um það í fyrra við aðila vinnumarkaðarins að endurskoða þau lög frá grunni því að með mjög auknum gjaldþrotum hafa greiðslur úr ríkissjóði margfaldast eins og kemur fram í
töflu sem fylgir hér í athugasemdum og menn voru sammála um að ýmis ákvæði þyrfti að endurskoða eins og t.d. hámarksgreiðslu o.s.frv. Að því hefur unnið nefnd sem í eru fulltrúar bæði ASÍ og VSÍ og hafði unnið málið nokkuð til lykta en ágreiningur var um nokkur atriði, fyrst og fremst þann vilja ríkisvaldsins að greiða ekki það sem gjaldfallið er til lífeyrissjóða, fella það út úr greiðsluskyldunni. Um það var ekki samkomulag og hefur verið fallist á að halda lífeyrissjóðunum inni í greiðsluskyldunni þó með þeirri kvöð að þeir skuli hafa gert tilraun til innheimtu enda kunnugt um hvert stefndi með gjaldþrotið. Hins vegar var samkomulag um það að takmarka hámarksgreiðslu við þreföld lágmarkslaun samkvæmt greiðslum Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Að öðru leyti eru í frv. ýmsar lagfæringar sem fullt samkomulag er um við aðila vinnumarkaðarins

og ég held að það sé ekki raunhæft að fara um það öðrum orðum en að þar er um lagfæringar að ræða sem ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í. Það eru rakin hér nokkur atriði á bls. 6 og náðist um þau öll samkomulag.
    Eins og ég sagði áðan er hér um að ræða framkvæmd á fyrirheitum ríkisstjórnarinnar og mjög æskilegt er að þetta mál komist í gegn sem fyrst. Fyrst og fremst er það 7. gr., sem fjallar um framreikning á grundvelli búvöru, sem er mjög aðkallandi því að slíkur framreikningur getur annars ekki komið til framkvæmda 1. mars nk. Að vísu skal tekið fram að það liggur ekkert fyrir núna hvort einhver hækkun yrði þá en til þrautavara hygg ég að sé nú skynsamlegast að hafa lögfest þetta ákvæði fyrir þann tíma og þá þar með önnur ákvæði þannig að ljóst liggi fyrir að við þau fyrirheit verður staðið sem gefin voru og krefjast aðgerða löggjafans. Þetta mál fékk mjög skjóta meðferð í Nd. og er von mín að svo geti orðið hér einnig.
    Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.