Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Karvel Pálmason (um þingsköp):
    Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í dag um þingsköp og óskaði eftir því að það mál sem er nr. tvö á dagskrá þessa fundar yrði tekið til umræðu fyrst. Ég tel að það sé mikilsvert mál og þurfi að fá ítarlega umfjöllun og þyrfti e.t.v. að komast til nefndar áður en þessari viku lýkur. Nú er það ekki sérstaklega ósk mín að þetta mál fari endilega á þennan vergang sem hér er verið að tala um. Ég virði vissulega þriðja málið sem hér er verið að ræða, um ráðstafanir vegna kjarasamninga, það er mikilvægt frv. líka. En ég held að nauðsynlegra sé að koma hinu málinu áfram og það sé ekki rétt að slíta mjög lengi í sundur umræður um það mál sem er eitt af mestu stórmálum sem þingið kemur til með að fjalla um, sem er stjórn fiskveiða. Ég a.m.k. mótmæli því harðlega að menn ætli sér að setja hér á kvöldfund að því er það mál varðar og tek undir þær óskir sem hér hafa komið fram um að ef menn vilja endilega ljúka þriðja málinu, þá kann það að þurfa að gerast en þá þarf það að gerast líka fyrir kvöldmat. Ég hef enga trú á því ef menn taka upp umræður um stjórn fiskveiða að þeim ljúki neitt um kvöldmatarleytið ef menn ætla að taka hitt á undan. Um það hljóta að verða meiri umræður en tíminn til kvöldmatar leyfir. Það er það stórt mál sem ég hygg að margir þurfi að tjá sig um og menn verða auðvitað að fá til þess tækifæri að tjá sig í slíkum stórmálum.