Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Það var ekki ætlun mín að taka almennt þátt í umræðunum heldur svara hér nokkrum fyrirspurnum sem hefur verið beint til mín. M.a. beindi hv. 6. þm. Vesturl. til mín fyrirspurn eitthvað á þá leið hvað liði starfi svokallaðrar hugarflugsnefndar. Mér er ljúft að verða við því að svara þessari fyrirspurn.
    Þegar ég fékk í hendur það verkefni að vinna að því að móta atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar við myndun núv. hæstv. ríkisstjórnar 10. sept. sl. hafði þegar verið skipuð atvinnumálanefnd með aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum stjórnmálaflokkanna sem heyrir undir forsrh. og vinnur að úttekt á atvinnulífinu og skilyrðum þess. En til að kanna þar fyrir utan hvaða möguleikar bjóðast í framtíðinni í hinum ýmsu greinum atvinnulífsins skipaði ég lítinn starfshóp sem sumir hafa kallað hugarflugsnefnd til að kanna og fjalla um hvaða tækifæri við eigum ónýtt og hvort hægt er að gera eitthvað betur í hinum ýmsum atvinnugreinum sem við stundum á Íslandi. Þessi hópur hefur starfað mjög ötullega síðan í nóvember. Hann hefur haldið vikulega fundi og farið mjög ítarlega yfir nánast alla þætti íslensks atvinnulífs. Þar fyrir utan hefur hann velt upp ýmsum nýjum hugmyndum og athugað hvaða nýjar leiðir væri hægt að fara í atvinnumálum. Ég geri ráð fyrir að það verði hægt e.t.v. þegar líður fram á vorið að fá fram drög að skýrslu eða a.m.k. áfangaskýrslu um það starf sem þar er unnið. Síðan er gert ráð fyrir að halda þessu verkefni áfram og um næstu áramót ljúki verkinu með skýrslu um niðurstöður starfshópsins.
    Hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason kom inn á fund sem var haldinn um atvinnumál á Ísafirði og ég held að það sé kærkomið tækifæri til að fjalla eilítið um þann fund hér. Ég skal ekki taka langan tíma í það. Svo er mál með
vexti að í tengslum við þetta verkefni sem var mótun atvinnustefnu til framtíðar hafa verið haldnir nokkrir atvinnumálafundir í kjördæmunum til að móta atvinnustefnu framtíðarinnar í samvinnu og í samráði við fólkið í landinu. Sl. þriðjudagskvöld var slíkur fundur auglýstur á Ísafirði og hann var haldinn og ég verð að segja eins og er að ég hef sjaldan ef nokkurn tíma setið betri fund um mál sem þar var á dagskrá. Umræður voru málefnalegar, fjöldamargir heimamanna tóku til máls og á málefnalegan hátt lýstu þeir vandamálum atvinnulífsins og hvaða framtíð þeir sæju fyrir sér. Ég hef sjaldan ef nokkurn tíma hlustað á jafnfróðlegar ræður og gagnlegar. Við tókum niður nákvæma fundargerð af þessum fundi og hyggjumst nota hana í því verkefni sem bíður sem er mótun atvinnustefnu. Það kom því eins og köld gusa þegar Ríkisútvarpið flutti fréttir af þessum fundi daginn eftir sem voru greinilega falsaðar. Ég get ekki líkt þessum fréttum við neitt annað en fréttafölsun og þykir mér furðulegt að fréttamaður Ríkisútvarpsins úti á landi skuli leyfa sér að afflytja fréttir af þessum fundi og viðhafa hreina fréttafölsun. Ég hef haft samband við

bæjarstjórann á Ísafirði, Harald L. Haraldsson, sem bað mig um að þess yrði getið í þingræðu í dag að hann og aðrir Ísfirðingar eru furðu lostnir yfir þessum fréttaflutningi og eru harmi slegnir yfir því að þessi fundur svo og ýmis önnur mál sem fjallað er um í fréttum Ríkisútvarpsins frá Ísafirði skuli afflutt með þessum hætti. Og ég vil beina því til þeirra sem stýra Ríkisútvarpinu, mér þykir leitt að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera hér því að ég mundi þá biðja hann um að athuga þetta mál, að það verði skoðað hvað hér er á ferðinni.