Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það var beint til mín þeirri fyrirspurn hvort það hefði miðað í samræmi við viðhorf okkar alþýðubandalagsmanna til launajöfnunar í þróun kjaramála á undanförnum tveimur árum. Ég vil í fyrsta lagi geta þess að bæði þeir kjarasamningar sem gerðir voru við BSRB og síðan þeir kjarasamningar sem nú hafa verið gerðir eru til hagsbóta fyrir láglaunafólk. Þeir samningar sem gerðir voru í fyrra fólu í sér sérstakar hækkanir fyrir láglaunafólk sem er starfandi hjá ríkinu, sérstaklega í mörgum fjölmönnum stéttarfélögum þar sem konur eru meginhluti félagsmanna.
    Ég vil geta þess að á Alþingi næstu daga verður lagt fram svar við fyrirspurn sem borin var fram fyrr í vetur þar sem koma fram launagreiðslur til félagsmanna í öllum aðildarfélögum sem eiga starfsmenn í þjónustu ríkisins. Þetta svar er upp á marga tugi blaðsíðna og mun veita mjög víðtæka möguleika til að skoða þann samanburð sem hv. þm. vék hér að. Þess vegna teldi ég kannski skynsamlegra að ræða þetta efni þegar þær upplýsingar hafa verið lagðar fram hér á Alþingi. Ég vildi hins vegar geta þess að í þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið í fyrra og á þessu ári teljum við að nokkuð hafi miðað þó það hefði mátt vera meira í átt að launajöfnuði. Það mál hefur einnig verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar þar sem ríkisstjórnin er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að stuðla að aukinni launajöfnun í okkar landi. Þetta vildi ég að kæmi hér fram sem svar við þeirri fyrirspurn sem hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir bar fram.