Stjórn fiskveiða
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Það er áreiðanlega ekki ofsögum sagt að fiskveiðistefnan sé eitt stærsta eða stærsta mál þessa þings og vissulega vandmeðfarið mál. Þess vegna hefði maður getað rætt það vel og lengi en það ætla ég ekki að gera því að tíminn er naumur nú. Það er að mínu mati eðlilegt að málið gangi til nefndar því að mikið starf er óunnið og ágreiningur mikill sem líklega leysist betur í nefndarstörfum en að við byrjum við 1. umr. harðari deilur en nauðsynlegt er. Ég kemst þó ekki hjá því að láta í ljós álit mitt á ýmsu því sem frv. fjallar um.
    Það er fyrst til að taka að menn telja að frv. sé ótímabundið eins og það er orðað og það þýði að þetta ástand eigi að vera varanlegt og jafnvel til eilífðarnóns. Auðvitað er það fáránlegt og ég hygg að hæstv. sjútvrh. geri sér grein fyrir því að auðvitað getur Alþingi hvenær sem er breytt lögum sem það hefur sett, jafnvel á sama þingi og daginn eftir að þau taka gildi. Ég hygg að hæstv. ráðherra og heyrðist á hans framsöguræðu að hann geri sér alveg grein
fyrir því. Þess vegna er auðvitað villandi þegar menn tala um að frv. sé ótímabundið í þeim skilningi að öll ákvæði þess eða einhver eigi að vera í lögum lengur en Alþingi vill, það Alþingi sem nú situr eða það Alþingi sem væntanlega verður kosið á þessu ári eða í öllu falli hinu næsta. Það er nauðsynlegt að menn hafi þetta í huga og ég tel það vera kannski einn ljósasta punktinn í þessu frv. og þessu kerfi öllu saman að það er þó alla vega hægt að breyta því þegar í óefni er komið og menn telja að svo sé. Þess vegna undirstrika ég það og vænti þess að menn greini frá því hvar og hvenær sem er að þetta frv. er auðvitað ekki ótímabundið í þeim skilningi að það þurfi að vera í lögum deginum lengur en Alþingi vill.
    Sömu sögu er að segja um þær reglur sem í gildi eru í dag. Við lokaumræðu í þessari hv. deild um kvótafrv. til þriggja ára lýsti ég því einmitt yfir og undirstrikaði, sem mönnum þótti kannski eitthvað einkennilegt fyrst þegar þeir heyrðu það, að það frv. og sú skipan gilti ekki deginum lengur en Alþingi vildi að hún gilti. Þess vegna hefði auðvitað verið hægt á þessu tímabili að breyta reglunum og kvótasala t.d. hefði ekki getað verið þá nema til einnar vertíðar í senn ef Alþingi hefði breytt því. Þá hefðu náttúrlega getað sprottið málaferli á milli þeirra manna sem kvótasölu stunduðu og það sama er auðvitað að segja um þetta frv. Það getur enginn selt bát með réttindum sem eiga að vara í eitt ár, tvö ár svo ég tala nú ekki um tíu ár eða lengur. Það er ekkert slíkt í þessu frv. og það tel ég einna best við það að hægt er að breyta því og verður kannski gert á þessu þingi. En það kemur náttúrlega í ljós og einhverjar breytingar verða náttúrlega ef fiskveiðistefnan verður afgreidd hér á vordögum. En því væri hægt að breyta ef mönnum sýndist að haustlagi. Þetta er nauðsynlegt að menn hafi í huga.
    Annað sem ég tel að menn verði vel að íhuga er það að mér sýnist að verið sé að færa í eitt ráðuneyti,

fagráðuneyti eins og það er kallað þó það sé slæmt orð, völd sem ég hygg að hvergi hafi áður safnast saman í neinu ráðuneyti, skipulagsleg völd sem ég tel vera algerlega óeðlilegt og ekki samrýmast þrískiptingu valdsins og eðlilegum lýðræðislegum stjórnarháttum. Það liggur sem sagt fyrir að auðvitað er það Alþingi sem hefur forustu um löggjöf en líka náttúrlega ráðherrann sem fer með þessi mál á hverjum tíma. Hann hefur fyrst og fremst forustu um setningu löggjafarinnar og er þar af leiðandi löggjafi ásamt okkur hinum.
    Síðan kemur að framkvæmd þeirra laga og reglna sem settar eru og þar er æðsti maðurinn líka sjútvrh. og á ég þá ekki við endilega hæstv. núv. sjútvrh. Stöðu sinni samkvæmt ætti hvaða sjútvrh. sem væri að fara með framkvæmd löggjafarinnar, þar á meðal lögreglustjórn í raun og veru. Því að t.d. þær reglur sem var verið að samþykkja fyrir áramótin um sérstakt gjald til veiðieftirlits eða hvað það er kallað er ætlað til lögreglustarfsemi. Það er starfsemi sem ætti að vera á höndum Landhelgisgæslunnar að sjálfsögðu en alls ekki sjútvrh. Það eru löggæslustörf sem ætti að greiða af almannafé eins og önnur löggæslustörf og heyra undir Landhelgisgæsluna en hana ber auðvitað að efla og eru mörg rök sem hníga að því að hversu illa sem ríkissjóður er staddur þá þurfi að efla Landhelgisgæsluna. Ég kem raunar að því á eftir þó að ég ætli að reyna að stytta mál mitt eins og kostur er. Þar að auki er komið dómsvald í sjútvrn. Ég hygg að hvergi hafi jafnikið vald safnast saman á einn stað eins og núna er verið að safna saman í sjútvrn.
    Nú tala menn þar að auki um aflamiðlun og í hvaða ráðuneyti hún eigi að vera eða hvort hún eigi að vera í ráðuneyti. Ég held að hún eigi alls ekki að vera í neinu ráðuneyti en látum það vera. Ef hún er í sjútvrn. þá er það enn meiri samþjöppun valds. Hér er sem sagt ekki um þrískiptingu valdsins að ræða, alveg þveröfugt. Öllu valdi er safnað á einn stað sem er mjög óhollt bæði fyrir ráðuneytið og ég tala nú ekki um þann ráðherra sem á að stjórna því og fyrir eðlilega þróun í þjóðfélaginu.
    Áður fyrr safnaðist í dómsmrn. margvíslegt vald, t.d. náðanir fyrir skulum
við segja ölvun við akstur og annað slíkt. Fyrir forustu Bjarna Benediktssonar var þetta afnumið og slíkt vald tekið af framkvæmdarvaldinu enda óeðlilegt að það sé þar. Á sama hátt ættu auðvitað dómsmál í sambandi við hugsanleg brot á reglum um veiðar að vera hjá dómstólum eða saksóknara eða einhverjum óháðum aðila, alls ekki í ráðuneytinu og síst að hlaða einu valdinu ofan á annað og hræra öllu saman. Það hlýtur fyrr eða síðar að leiða til ógæfu.
    Þetta þurfa menn að ræða í nefndinni og þetta þurfa menn að ræða á næstu mánuðum og missirum. Ég held að enginn sé út af fyrir sig ósammála mér um þetta þegar menn fara að hugsa það niður í kjölinn og ætti að geta náðst gott samkomulag um að reyna að greiða úr þessari hættulegu flækju því að hún á ekki heima í lýðræðislegu stjórnskipulagi. Má

t.d. nefna dóma Hæstaréttar sem nýverið féllu þegar dæmt var eftir raunverulega erlendum lögum. Ég var ekki sammála því að Hæstiréttur ætti að fara með þessum hætti að enda yrði þá Alþingi að setja löggjöf um það. En þar var greint frá því að ekki mætti sami maður vera rannsóknaraðili og dómari. Ég tel að það sé kannski of mikill gauragangur í því öllu. Og hvað þá um þetta sem er ætlast til að við samþykkjum núna. Þarna er öllu hrært í einn og sama grautinn. Öllu valdi í sjávarútvegsmálum þjappað á hendur eins ráðuneytis. En nóg um það.
    Að því er varðar kvótamálin yfirleitt er það ekkert launungarmál að frá upphafi hef ég verið mjög efins, svo að ég hafi nú ekki sterkari orð, um það að þetta væri hið eina rétta til að takmarka fiskveiðar og vernda stofnana sem við öll erum sammála um. Ég taldi og tel raunar enn að það sé hægt að finna heppilegri leið og það er að takmarka veiðar við ákveðin tímabil. T.d. eins og hefur komið fram hjá fleirum en mér að skipta kvótanum milli báta og togara og skipta árinu líka í einhver tímabil og síðan væri einn allsherjarkvóti ýmist fyrir báta eða togara og þegar honum væri náð þá bara hreinlega veiddu menn ekki meir. Menn gætu kannski valið eitthvað innan þessa stigs, t.d. hve marga daga, þyrftu ekki að vera nákvæmlega sömu dagarnir sem öll skipin mættu veiða. Það gæti dreifst eitthvað en þegar heildarkvótinn væri búinn þá yrði stöðvun þó skipin þyrftu ekki öll að stöðvast á sama tíma. Þetta væri einfaldara og ég held happadrýgra. En um það deila menn auðvitað og verður deilt áfram.
    Hitt held ég að sé ekki hægt að deila um að það er hvati í kvótakerfinu sérstaklega þegar kvótinn minnkar á hvert skip eins og nú er verið að gera, ekki skal ég gagnrýna það, að þá er það auðvitað alveg ljóst að menn vilja koma með besta fiskinn að landi. Ef það er í tonnum talið hvað þau mega veiða þá er ekki hirtur hver smáfiskur. Það er alveg ljóst. Smáfiskadrápið fer vaxandi ekki síst auðvitað á því sem hefur verið nefnt ryksugutogarar eða hinir glæsilegu frystitogarar. Það er beinlínis innbyggður hvati í kerfinu að hirða ekki allt. Ef hvert skip má veiða ákveðið tonnamagn t.d. af þorski þá fer nú smáfiskurinn fyrir lítið er ég hræddur um, það er auðvitað alveg ljóst. Maður veit að eðlið er svona hvað sem menn segja um að það sé óþjóðlegt eða eitthvað í þá áttina að menn bjargi sér með þeim hætti sem fiskimenn eru vanir að gera. Þeir eru vanir að ná sem mestu til sín í gegnum aldirnar þegar hart hefur verið í ári og ekki síst þegar hart er í ári eins og núna af hvaða sökum sem það nú er. Menn geta rifist um það líka hvort kreppan er heimatilbúin eða ekki. En þetta er ekki stefnan til þess að gæta dýrmætustu eignar okkar, þ.e. fiskimiðanna.
    Hvað varðar auðlindaskattinn þá er ég enginn stuðningsmaður hans. En ég held að ef við búum áfram við kvótann, ég tala nú ekki um í þeim skilningi að það sé til eilífðarnóns, þá leiðir það auðvitað fyrr eða síðar til auðlindaskatts einfaldlega vegna þess að það verða örfá fyrirtæki þá sem kaupa

upp kvótana og verða öflug og ekkert nema gott um það að segja. Þá kemur auðvitað krafan um að skattleggja þau fyrirtæki og þá verður auðlindaskattur studdur af meginþorra fólks. Ég hygg að ef svo væri komið að það væru aðeins örfáir einstaklingar eða útgerðarfyrirtæki sem væru með meira eða minna allan kvótann í sínum höndum þá væri það talin réttlætiskrafa að setja á auðlindaskatt. Ég vona að ekki komi til þess. Ég hef von um að þetta kerfi verði afnumið eða því breytt með einhverjum þeim hætti að ekki þurfi til þess að koma.
    Af minni háttar atriðum finnst mér vera ósköp langsótt að heimta það að menn fái einhver sérstök leyfi til þess að stunda frístundaveiðar. Menn megi ekki fara út á flóa og veiða sér í soðið nema hafa bréf upp á það frá lögreglustjóra eða ráðuneyti eða hvaðan sem það bréf á nú að koma. Mér finnst þetta óþarflega mikill ótti um rányrkju og held að það ætti að sleppa því. Þetta er ekki til neins annars en að gera menn arga og reiða út í kerfið.
    Hitt væri þá miklu frekar að það mættu vera einhver ákveðin tímabil sem menn veiddu og væri þá allsherjarþorskveiðibann á öðrum tímabilum. Þetta þekkjum við auðvitað um veiðar í vötnum o.s.frv. Það er hægt að gera það og gengi þá eitt og það sama yfir alla. Þetta er svona til athugunar og auðvitað minni háttar atriði.
    En ég held að það þurfi að huga að því nú hvernig við ætlum að komast út úr kerfinu og það verður að gerast í áföngum. Það er alveg ljóst að verð á skipum hefur stórhækkað og er allt annað vegna kvótans og er ekkert við því að segja.
Menn hafa bundið sér bagga með kvótakaupum og því miður með of mikilli aukningu flotans sem líka má rekja til þessa kerfis. Þess vegna eru ekki nein önnur ráð en að finna leið til að komast til baka út úr þessu í áföngum. Það er eitt sem ég held að nefndirnar þurfi að athuga.
    Ég ætla ekki að fara lengra út í einstök atriði þessa máls vegna hins nauma tíma en ég vona að það verði ekki talið óeðlilegt að ég víki hér að frv. auðvitað alveg nátengdu þessu sem því miður var tekið hér á dagskrá utan venjulegs fundartíma og ég áttaði mig ekki á að það færi hér umræðulaust til nefndar.
    Það frv. er 84. mál Nd., um breytingu á lögum nr. 33/1932, sem er ein merkasta löggjöf sem stendur í lagasafni Íslendinga, jafnast að sumu leyti kannski á við stjórnarskrána og sýnir þá miklu framsýni sem forverar okkar höfðu fyrir 65 árum sem getið er um í greinargerð með þessu frv. og mér finnst oftast að það sé gert í hæðnistón, að það sé verið að breyta ákvæðum sem staðið hafa í 65 ár, að þetta séu gömul ákvæði. Þau eru gömul en þau eru góð og þau eru ekki úrelt. Og það sem gerir það að verkum, að ég hygg, að Nd. hefur hleypt þessu máli í gegn er að menn vita ekki hvað þeir voru að samþykkja því að grg. fjallar alls ekki um það, hvað verið er að samþykkja. En þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Tilgangur frumvarps þessa er að undanþiggja færeysk og grænlensk fiskiskip ákvæðum 65 ára

gamalla laga sem banna erlendum fiskiskipum að landa afla sínum í íslenskum höfnum nema með sérstöku leyfi ráðherra.``
    Það er miklu meira í þessu frv. (Gripið fram í.) Það er rétt að ráðherra hefur skv. 3. mgr. 3. gr. núgildandi laga um fiskveiðar og réttinn til fiskveiða í landhelgi leyfi til að veita undanþágur --- en það er verið að breyta allt öðru ákvæði en að afnema gagnvart Færeyingum og Grænlendingum og ætla ég nú aðeins að rekja það svo að menn viti hvað um er að ræða. Í 1. mgr. 3. gr. þessarar merku löggjafar, sem ég jafna til stjórnarskrárinnar í okkar frelsisbaráttu og baráttu fyrir yfirráðum yfir okkar eigin auðlindum --- þetta er hin merkasta löggjöf sem sett hefur verið og á henni byggt frá upphafi til þessa dags og engum hefur dottið í hug að breyta meginefni löggjafarinnar, segir:
    ,,Erlendir fiskimenn, er reka kynnu fiskveiðar utan landhelgi, mega leita skjóls við strendurnar til þess að bjarga sér undan stormi og óveðri.`` Síðan kemur: ,,Annars er bannað útlendingum að hafast við við land eða í höfn, til þess að reka þaðan fiskveiðar utan landhelgi.`` Þennan seinni málslið þessarar málsgreinar á að afnema. Og það sem á að afnema að auki er eftirfarandi, 2. mgr.: ,,Það er og bannað erlendum skipum að verka veiði í landhelgi eða á höfnum inni; enn er bannað öllum öðrum en íslenskum ríkisborgurum að flytja veiði sína í landhelgi eða á land, til þess að verka hana.`` Þetta á líka að afnema, að vísu eingöngu gagnvart Færeyingum og Grænlendingum. Sem sagt, menn mega fara öllu sínu fram innan landhelginnar, hvar sem þeim sýnist. Þeir mega gera að afla sínum, jafnvel hér úti á Austurvelli ef borgaryfirvöld grípa ekki í taumana. Það er sem sagt verið að afnema þetta meginatriði í okkar stefnu í fiskveiðilöggjöf, að svo miklu leyti sem við höfðum löggjafarvald á meðan gamli samningurinn frá 1901 var í gildi, það sem við höfum byggt á allan okkar rétt til að verjast ofsóknum og rányrkju útlendinga. Og það er auðvitað alveg ljóst ef menn lesa þetta saman að það getur ekki komið til greina gagnvart einum eða neinum að við segjum sem sagt með gagnályktun: Leyft er Færeyingum og Grænlendingum að hafast við við land og í höfnum til þess að reka þaðan fiskveiðar utan landhelgi. Leyft er þeim og þeirra skipum að verka veiði í landhelgi eða í höfnum inni og enn er þeim leyft, eins og íslenskum ríkisborgurum og framar þeim kannski, að flytja veiði sína í landhelgi eða á land til þess að verka hana. Ekki til þess að selja íslenskum fiskverkendum aflann. Nei, nei. Þeir mega gera hvað sem þeir vilja innan okkar landhelgi.
    Nú er ég ekki minni vinur Færeyinga og Grænlendinga en einhverjir aðrir þeir í Nd. sem óvart samþykkja þetta. Þess vegna kannski gæti maður séð í gegnum fingur sér ef það vildi nú ekki svo til að verið er að ræða við forsvarsmenn einhverra sterkustu fjármálaafla veraldarinnar í Evrópu um einhvers konar samvinnu við þá og verðum við ekki alltaf tilneyddir að hafa hana einhverja? En að við færum þá að veifa

því framan í þá að við værum að afnema allar hömlur á verkun afla útlendinga á Íslandi og að innan landhelginnar mættu þeir hafa hvað sem þeir vildu, óbúlkuð veiðarfæri, mættu gera hvað sem þeir vildu, að við værum að heimila það. Svo ætluðum við að setjast að samningaborði um viðskiptamálefni við Evrópubandalagið, af því að samningar um sjávarútvegsmál koma auðvitað ekki til greina við það bandalag, en þeir vitandi það að við værum að opna hér allar gáttir. Auðvitað verður að breyta þessu. Það má auðvitað, ef mönnum finnst það eitthvað geðfelldara eða ef menn sætta sig betur við það í Nd., hverfa til 3. mgr. þar sem veitt eru tímabundin leyfi o.s.frv. til að milda þetta. Þetta mál verður auðvitað að stöðva. Það var stöðvað í fyrravor hér í þessari hv. deild og ég vek athygli á því að það er algjör nauðsyn að það verði gert að nýju.
    Að lokum bendi ég á að það eru mörg úrræði önnur en þau sem beitt hefur
verið til þess að auka afla íslenskra skipa. Árið 1982 helguðum við okkur Reykjaneshrygg út í 350 mílur. Þar hafa verið að veiðum þetta 50--100 skip frá Austur-Evrópulöndum árum saman og fiskað vel, hygg ég. Sem betur fer eru menn aðeins farnir að huga að þessu. Þar eru ósótt verðmæti, mjög mikil verðmæti, og mér er tjáð og ég veit raunar að a.m.k. eitt útgerðarfélag vill senda tvö skip og ég hygg að þau muni fleiri. Ég veit að hæstv. sjútvrh. hefur áhuga á því að greiða fyrir því að þessar veiðar verði stundaðar í einhverjum mæli og a.m.k. þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru, en eins og menn væntanlega vita er það fullveldisréttur sem við eigum 350 mílur út á Reykjaneshrygg og í þeim fullréttisrétti felst að enginn má snerta botninn, það má engar botnvörpuveiðar þar stunda, það má ekki koma upp með stein eða skel, þá er það lögbrot og á að færa þann aðila í land og sekta hann ef svo er. Það má heldur ekki fleygja neinu í hafið sem sekkur til botns. Það er sérstakt ákvæði um það í Evrópusáttmálanum, 210. gr. Það er algerlega óheimilt að fleygja nokkru því fyrir borð sem fellur til botns. Þar er fullveldisréttur. Það er eignarréttur viðkomandi þjóðar að botninum og menn hafa verið furðulega seinir að skilja þetta hér á Íslandi. Menn skilja það þó væntanlega núna, að það þarf að styrkja landhelgisgæsluna til þess að vernda þessi mið og ber að gæta þeirra og fylgjast mjög náið með veiðum útlendinga. Auðvitað á ekki að fara með neinu offorsi gagnvart mönnum sem halda að þeir séu í einhverjum rétti þar heldur aðvara þá og hægt og bítandi beina þeim út af þessum miðum sem við Íslendingar kunnum alveg, að láta menn skilja aðvörunina.
    Þá er það nú Hatton-Rockall svæðið. Það er nú komið frá sjálfum forsætisráðherra Breta bréf til okkar forsætisráðherra þar sem Bretar lýsa sig mjög fúsa, ,,very willing``, til að ræða málin til að hægt sé að nálgast lausn þeirra. Bretar gera sér fullkomlega ljóst að þeir fá aldrei eina fermílu af hafsbotninum á Hatton-Rockall svæðinu án samvinnu við okkur, Færeyinga og Dani. Það er útilokað að þeirra réttur

geti verið meiri en okkar. Það held ég að öllum fræðimönnum beri saman um. Bretar skilja það þess vegna auðvitað og hafa nú boðið okkur til viðræðna í fyrsta skipti í 12 ára sögu okkar. Það eru 12 ár síðan Alþingi fyrst samþykkti tillögu um Rockall-svæðið og bauð fram samvinnu og samstarf. Það var sem sagt 22. des. 1978. Núna fyrst hefur komið svar frá sjálfum forsætisráðherra Breta um það að Bretar séu mjög fúsir að taka upp samninga við okkur og viðræður. Það ber auðvitað að gera nú alveg á næstu vikum og mánuðum og ég þykist þess fullviss auðvitað, enda samþykkti utanrmn. Alþingis að beina því til ríkisstjórnarinnar að þessu boði yrði feginsamlega tekið og þar er að koma lausn. Ætlar einhver að segja mér eða öðrum að það sé enginn fiskur á öllu þessu gífurlega svæði? Ég veit raunar að það fór hér fyrir nokkrum árum línuveiðari frá Noregi og kom drekkhlaðinn af saltfiski eftir 3--4 vikna skeið af þessu svæði, af Hatton-bankanum sem við eigum alveg einir hvernig sem allt annað færi vegna þess að miðlínan er þannig vaxin að allur Hatton-bankinn tilheyrði okkur ef ekki næðist samkomulag um sameign og samnýtingu.
    Og auðvitað á að rannsaka hvaða auðæfi eru þarna á hafsbotni. Að það sé enginn skelfiskur í volga sjónum þarna suður frá, að íslenski þorskurinn okkar hafi kannski ekki skroppið þangað þegar köldu árin voru hér, það var ekki reynt að kanna það. Ég er ekki að ásaka neinn einstakan. Það var enginn sem hafði neina forgöngu um það. Mönnum hefur þótt þetta fjarlægt alveg eins og 200 mílurnar voru fjarlægar fyrir 15 árum. En svona er það nú að þarna eru líka möguleikar sem ber að kanna og við verðum líka að sýna eins og við gerðum í samvinnu við Dani þegar við sendum rannsóknarleiðangur til þess að kanna hafsbotninn sem hefur borið mikinn árangur, með mjög merkilegum rannsóknum sem hafa farið fram sem benda til þess að þarna geti verið mjög ríkulegar olíulindir og annað slíkt. Ég er ekkert að sækjast eftir þeim út af fyrir sig, en það styrkir okkar rétt að við, með Dönum, gerðum þennan leiðangur út alveg á sama hátt og þegar við viljum, gjarnan með Færeyingum, gera út leiðangur til fiskileitar á þessu svæði jafnvel þó að það kosti eitthvað. Það er betri fjárfesting en að vera að drepa smáfiskinn okkar að senda einhver skip þangað.
    Jan Mayen-málið. Við höfðum þar stórkostlega sigra 1980 varðandi fiskveiðarnar þegar við fengum 85% af allri loðnunni í stað þess sem Norðmenn buðu okkur hér, þrír ráðherrar með fríðu föruneyti dagana 29. og 30. júní 1979. Þeir buðu okkur upp á 60--70 tonn í tvö ár af loðnu af miðunum gegn því að þeir fengju að eiga allt Jan Mayen-svæðið einir. Við áttum að hafa þessa titti í tvö ár og margir vildu samþykkja þetta. Og þeir sem stóðu gegn því urðu fyrir verulegum ádeilum, opinberlega, á prenti --- og líka að Norðmenn mættu fara inn að miðlínu hjá okkur í staðinn fyrir að við fengjum óskertar 200 mílur. Það skall hurð nærri hælum þar. Norðmennirnir ætluðu að klára þetta á einum degi, þotan þeirra beið hérna úti

á Reykjavíkurflugvelli. En þeir sváfu nú um nóttina og héldu svo burt kl. 5 daginn eftir, samningslausir. Eftir nokkra mánuði var búið að semja um það sem ég var að tala um. Og eftir réttum skilningi á Jan Mayen-samkomulaginu frá 1980 eiga Íslendingar a.m.k. 50% af öllum öðrum auðæfum, lífrænum auðæfum, í
hafinu, fiskum og slíku á öllu Jan Mayen-svæðinu, ekki bara út af Jan Mayen heldur 200 mílur austur fyrir Jan Mayen líka. Þar er að vísu djúpur sjór fljótlega þegar komið er austur fyrir Jan Mayen, austur og norður fyrir Jan Mayen, en við eigum þar þessi réttindi, og við eigum helmingsréttindi á hafsbotninum sem fékkst gífurlega merkilegum samningi sem gerður var árið 1981 um hafsbotnssvæðin. Og Norðmenn hafa fyllilega staðið við hann. Við fengum meira en helmingsréttindi vegna þess að þeir eiga að kosta allar forrannsóknir og hafa gert það á síðustu 3--4 árum, kostað til þess miklu fé, og allt bendir til þess að þar geti verið ríkulegar olíulindir líka þó að það sé nú ekki aðalkappsmálið að við gerumst einhverjir olíufurstar. Menn hafa verið að lesa um það að talið sé mjög líklegt að á Austur-Grænlandi séu slíkar olíulindir, kannski með 16 km þykkum setlögum, hafa þeir talið sig hafa fundið þar, sem eru 4 km á þykkt í Norðursjónum, og partur af þessu landi er einmitt Jan Mayen-hryggurinn sem rak frá Grænlandi og eins er um Rockall-hásléttuna, hana rak líka frá Grænlandi. Þetta þurfum við allt saman að kanna og nýta. Við þurfum að hagnýta þessi réttindi á Jan Mayen-svæðinu til að þau falli ekki bara aftur í skaut Norðmanna. Ef við ekki sýnum neina tilburði til þess að nýta þessi skrifuðu réttindi og lögfestu í báðum löndunum, þá gætu þau fyrir vanrækslu okkar orðið einskis nýt.
    Allt er þetta orðið lengra en ég ætlaði mér en mér fannst ég verða að koma þessu að hér og vona að mér fyrirgefist það. Ég skal að öðru leyti greiða fyrir framgangi mála hér eins og ég get. Raunar langar mig til að segja margt fleira um þessi málefni, en ég held að hv. þm. hér í þessari deild skilji þetta allt saman og það þurfi ekkert að hafa neinar málalengingar. Við ætlum okkur að vernda þessi mið og við ætlum að varðveita þau og nýta á skynsamlegan hátt og við ætlum ekki að hleypa í gegn neinum vanhugsuðum tillögum.
    Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir geri grein fyrir þessum fyrirvara og legg því til fyrir hönd meiri hl. að málið verði samþykkt.