Stjórn fiskveiða
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Herra forseti. Það var að vísu gott að fá þessar upplýsingar, hvort sem þær standast eða ekki í reynd. Ég lít þá svo á að þetta sé ekki frv. hæstv. ríkisstjórnar ef svo er að ráðherrar Borgfl. standi ekki að því. Hverjir eru það þá sem standa að þessu frv. í nafni ríkisstjórnar? Ég spyr um það og óska eftir svörum. Er það formaður Alþb.? Er það formaður Alþfl.? Það er trúlega ekki formaður Borgfl. Líklega er það formaður Framsfl. (Gripið fram í.) Ja, af hverju ekki? (Gripið fram í.) Margt hefur nú gerst með ólíkari hætti en það gæti verið. En hverjir standa þá að þessu í nafni ríkisstjórnar? Ég held að nauðsynlegt sé að fá það upplýst. Ég er þeirrar skoðunar að andstaðan gegn þessu máli í því formi sem það hefur verið, ég tala nú ekki um eins og það er núna, hafi vaxið. Ég er ekkert viss um að þetta mál eigi meirihlutafylgi hér á Alþingi ef menn á annað borð vilja taka tillit til raunveruleikans í málinu. En af því að hæstv. hagstofuráðherra kom hér upp, þá spyr ég hann: Hvaða ráðherrar úr hæstv. ríkisstjórn standa að þessu frv.? Og ég óska svars.