Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Herra forseti. Hryggð hv. 2. þm. Norðurl. e. er mjög sorgleg því hún er byggð á misskilningi. Það er reyndar svo að kjarasamningarnir liggja allir ljósir fyrir. Þá geta allir lesið sem það vilja og hafi menn gert það, þá býst ég við að hvötin til þess að rangfæra og dylgja minnki.
    Í samninganefndum aðila vinnumarkaðarins eru menn ekki spurðir að því hvað verði skattar og hvað ekki. Okkur þótti eðlilegt og raunsætt að taka tillit til þess hvað væri í pípunum. Við biðjum ekki um skatta, öðru nær, en þetta var þáttur sem mönnum var ljóst að yrði að lögum og öll samningagerðin er ein heild þar sem fetað er það þrönga einstigi að reyna að halda kaupmættinum óbreyttum út samningstímabilið. Inn í þá útreikninga er þessi skattur byggður. Og við gerðum vissulega kröfur um meiri aðgerðir til lækkunar framfærsluvísitölu en punkturinn sem náðist fram var 0,3% lækkun, en það er í hendi ríkisstjórnarinnar hvernig það verður og við treystum því að það nái fram að ganga. Þegar talað er um lækkun framfærsluvísitölu þá er talað um að lækka vöruverð sem inn í hana er reiknað.
    Hvað varðar fordæmi þeirra sveitarfélaga sem eru að lækka gjaldskrár vil ég segja að auðvitað er það mjög jákvætt en ég minni á að það sem mest hefur verið auglýst er lækkun svokölluð á töxtum Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þeir voru hækkaðir mjög verulega í samningagerðinni. Samninganefndin mótmælti því mjög harðlega en það varð samt að veruleika. Síðan var þessi taxti lækkaður mjög óverulega. En staðreyndin er sú að þegar upp er staðið hefur Rafmagnsveita Reykjavíkur hækkað hvað allra mest á þessu ári.