Stjórnarráð Íslands
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Þau vinnubrögð sem stjórnvöld hafa beitt til að koma á umhverfisráðuneyti eru þeim og þinginu ekki til sóma og umhverfismálum lítt til framdráttar. Megináherslan hefur verið lögð á mikilvægi þess að stjórnin fengi sín mál afgreidd, eins og það hefur verið orðað, líkt og vegsemd þeirra væri mæld í afköstum án tillits til eðlis verkanna. Hér hafa hégóminn og yfirborðsgildin verið höfð að leiðarljósi en láðst hefur að ræða og kynna fyrir þingheimi stefnumörkun í hinum ýmsu þáttum umhverfismála.
    Okkur kvennalistakonur tekur það sárt að sjá hvernig nú er farið með þennan mikilvæga málaflokk sem verið hefur eitt af forgangsbaráttumálum okkar alla tíð. Við hefðum viljað að öðruvísi hefði verið að verki staðið þar sem megináherslan hefði verið á málefnin og verkefnin en ekki á tóman rammann. Það hefði verið okkur sannkallað fagnaðarefni að styðja slíka málsmeðferð og er leitt að horfa upp á þetta verklag en geta ekki stutt heils hugar við þetta baráttumál okkar, jafnbrýnt og verðugt verkefni sem stofnun umhverfisráðuneytis er.
    Herra forseti. Ég greiði ekki atkvæði.