Stjórnarráð Íslands
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Með þeirri ákvörðun meiri hluta Alþingis að stofna umhverfisráðuneyti er verið að taka mjög þýðingarmikla pólitíska stefnuákvörðun. Meiri hluti Alþingis mun að sjálfsögðu tryggja á komandi vikum og mánuðum að þessari ákvörðun verði fylgt eftir. Hér er því verið að taka mikilvæga ákvörðun og ég fagna því að eiga þátt í því að hún er tekin. Ég hygg að um þá sem ekki kjósa að verða samferða í þetta skipti muni verða sagt síðar að þeir vildu gjarnan allir Lilju kveðið hafa en hafi fyrir mistök misst af þessum strætisvagni. Ég ætla ekki að gera það og segi já.