Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. þá gerir þetta frv. ráð fyrir því að breyta gjalddaga bifreiðagjalds vegna gjaldtímabilsins frá 1. jan. til 30. júní á þessu ári, að hann skuli vera 1. apríl í stað 1. mars.
    Í sjálfu sér er þetta ekki mikilvæg breyting og þarf ekki að gagnrýna þá breytingu sem slíka. Hins vegar liggur fyrir þinginu og í nefnd í Nd. frv. um breytingu á lögum um bifreiðagjald þar sem gert er ráð fyrir gífurlegum hækkunum og auknum tekjum ríkissjóðs af bifreiðagjaldi en það verði um 1290 millj. kr. á þessu ári, þ.e. miðað við allt árið 1990 og þar af er áætlað að sérstök hækkun á bifreiðagjadi þýði 550 millj. kr. viðbótartekjur fyrir ríkissjóð. Á þessu ári gerir frv. ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs af bifreiðasköttum, þ.e. bensíngjaldi, þungaskatti og bifreiðagjaldi, verði um 5,5 milljarðar kr. Þessari hækkun mótmæltum við sjálfstæðismenn mjög ákveðið þegar frv. kom til umræðu hér og sömuleiðis í nefndinni. Það var fallið frá að afgreiða þetta frv. fyrir jól. Síðan hefur það gerst að gerðir hafa verið kjarasamningar, sátt á vinnumarkaðinum sem byggist á því að halda launakröfum mjög í hófi og vinna gegn verðbólgu og taka myndarlega á í þeim efnum og um það hefur tekist mjög víðtæk samstaða aðila vinnumarkaðarins, bæði launþegasamtaka og samtaka atvinnurekenda. Allir hafa orðið að taka á sig fórnir og það mjög miklar fórnir og þá ekki síst launþegar í landinu sem hafa séð það og skilið að það er nauðsynlegt að brjóta blað í sambandi við kjarasamninga og atvinnureksturinn tekur á sig stórfelldar byrðar. Það hefur heldur ekki farið á milli mála að ríkisvaldið hefur einnig orðið að taka á sig nokkrar byrðar. Þó fer ríkisvaldið best út úr hlutunum með slíkri kjaramálastefnu því annað hefði haft för með sér enn stórfelldari útgjöld fyrir ríkissjóð.
    Nú er liðinn rúmur mánuður frá því að Alþingi kom saman á þessu ári og þetta mál um bifreiðagjaldið hefur ekki verið tekið fyrir í fjh.- og viðskn. Nd. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að ég hélt að ríkisstjórnin væri gersamlega fallin frá þessari skattheimtu vegna þess að frv. var ekki tekið fyrir og hélt að hún væri nú að sjá að sér, hún væri nú að vitkast enda veitti ekki af. Allir eru sammála um það. En hvað kemur svo? Hér er flutt frv. um að breyta gjalddögunum. Maður las það á milli línanna að það er ekki gert af umhyggju fyrir þeim sem bílana eiga að færa gjalddagana fram um einn mánuð og veita þeim lánsfrest á þessum skatti um einn mánuð. Fjmrh. segir að það sé í bígerð að endurskoða þetta frv. og telji hann nauðsyn á að það sé gert í marsmánuði því að febrúarmánuður er búinn með þessum degi hér á Alþingi --- því að þetta er sennilega eina þjóðþingið í veröldinni sem lýkur störfum þegar haldið er annað þing sem er mikilvægara. Þá má nú hægja á enda eru nógir peningar til í þessu þjóðfélagi þegar boðað er til slíkra ráðstefna. Þá þarf ekki að halda hér áfram á fullri

ferð á meðan. En kostnaðurinn er eigi að síður sá sami. --- Tilgangurinn er sá að að endurskoða þetta frv. um bifreiðagjald en enginn veit enn þá í hvaða veru. Uppi eru hugmyndir um það að hækka bifreiðagjaldið verulega hvort sem það verður eins og það liggur fyrir eða ekki. En ef ríkisstjórnin ætlar við þessa stöðu sem núna er í þjóðfélaginu, ef hún ætlar að byrja á skattlagningu þegar allir aðrir eru krafnir um það að láta af sínum kröfum og viðhalda jafnvægi í peningamálum, í kjaramálum, í þjóðarbúskapnum, þá held ég að ríkisstjórnin sé að fara út á mjög hála braut. Það hlýtur að vera íhugunarefni fyrir ríkisstjórnina sjálfa, fyrir stuðningslið hennar hvort það ætlar að brjóta hér blað og koma á stað hækkunarskriðu. Menn verða að gera sér grein fyrir því, bæði þingmenn stjórnarliðsins og meira að segja ríkisstjórnin sjálf, að eftir þessu verður tekið. Ef slíkt skattafrumvarp nær fram að ganga rétt eftir að kjarasátt er gerð í þjóðfélaginu og allir hafa slegið af sínum kröfum og allir verða að þola það sem nú er stefnt að, að færa verðbólguna niður, þá verður það að hækka þessa skatta á öllum bifreiðaeigendum í landinu alveg það sama og hella bensíni á eld.
    Ég fyrir mitt leyti sé enga ástæðu til úr því að svona er komið að standa í vegi fyrir breytingu á gjalddaganum. En það breytir ekki afstöðu okkar sjálfstæðismanna sem eigum sæti í fjh.- og viðskn. og þeirra sjálfstæðismanna sem skipa þessa deild að við vörum við þessari skattahækkun en getum eftir atvikum fallist á að þetta frv. nái fram að ganga.