Bifreiðagjald
Föstudaginn 23. febrúar 1990


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm. fjh.- og viðskn. höfum við lagt hér fram brtt. við þetta frv. hv. 1. þm. Reykv. Friðrik Sophusson og ég þess efnis að við greinina bætist: ,,enda hækki gjaldið ekki á gjaldtímabilinu.``
    Þetta er í samræmi við það sem ég sagði við 1. umr. þessa máls að við teljum að það sé ekki ástæða til og mjög varhugavert að hækka skatta og því höfum við talið rétt að ganga tryggilega frá því. Hins vegar virðist það vera ætlun ríkisstjórnarflokkanna að hugleiða þetta mál eitthvað betur í næsta mánuði og þá sjáum við til hvort þær hugleiðingar verði með þeim hætti að þeir sjái að sér og telji rétt að fara ekki út á hálan ís. Það hefur gengið svo mikið á hjá þessari stjórn að þegar samningar og kjaramál virðast vera í góðu lagi þá er rétt að standa báðum fótum og það verður sennilega henni happadrýgst. En sá veldur ekki sem varar.