Flm. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 520 um afnám sérstakra togveiðiheimilda fyrir Vestfjörðum.
    Þáltill. er á þessa leið:
    ,,Alþingi ályktar að skora á sjútvrh. að endurnýja ekki heimild til togveiða á sérstökum svæðum fyrir Vestfjörðum, sbr. C-lið 1. gr. reglugerðar nr. 417 29. ágúst 1989.``
    Sérstakar heimildir fyrir togveiðar umfram ákvæði B-, F- og G-liða 3. gr. laga nr. 81 31. maí 1976 voru að sögn fyrst gefnar út í tilraunaskyni í september 1984 og hafa verið endurnýjaðar árlega síðan.
    C-liður reglugerðarinnar, sem fjallar um sérstakar togveiðar fyrir Vestfjörðum, var meðal annars settur í þeim tilgangi að nýta betur flatfisk innan almennra togveiðimarka, á mörgum stöðum allt að fjögurra mílna mörkunum.
    Smábátar á Vestfjörðum hafa að verulegu leyti stundað línuveiðar á þessum miðum en eftir að togskip komu þangað hafa smábátarnir orðið annaðhvort að leggja lóðir sínar innan fjögurra mílna markanna, við rýran hlut, eða sækja allt að 20--30 sjómílur á haf út til að forðast veiðislóð togskipanna.
    Augljóst er að þetta hefur stóraukna hættu í för með sér fyrir útgerð og áhafnir smærri báta ef óveður brestur á eins og títt er á þeim árstíma sem reglugerðin gildir, eða frá október til loka desember ár hvert. Á sama hátt má benda á lýjandi og kostnaðarsama sókn smábáta á svo fjarlæg mið.
    Á síðustu árum hefur því verið haldið fram að hlutur flatfisks í afla þeirra togskipa, sem þessar veiðar stunda, hafi dregist verulega saman og meginuppistaðan í afla þeirra sé nú ýsa og þorskur. Einnig hefur verið á það bent að togskipum frá Vestfjörðum hefur stórlega fækkað í þeim flota sem nýtir heimildir reglugerðarinnar og í þeirra stað eru komin skip frá öðrum byggðarlögum.
    Það má ljóst vera að reglugerðin leiðir til óhagkvæmra veiða þar sem langsigling aðkomuskipa á þessi mið er freistandi meðan þau eru opin í stað þess að stunda þau sem nær liggja löndunar- eða heimahöfn. Gæði aflans og verðmæti rýrna að sama skapi við þessa sókn, borið saman við línuafla smábáta frá nálægum höfnum sem óefað mundi aukast til mikilla muna fengju þeir frið til að stunda línuveiðar á þessari fiskislóð.
    En þyngst á metunum vegur sá háski sem smábátum og sjómönnum á þeim er teflt í með því að þvinga þá á þennan hátt í langsiglingar á fjarlæg mið í vetrarbyrjun þegar allra veðra er von.
    Verði reglugerðin endurnýjuð er því lagt til að C-liður hennar verði felldur niður.