Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég stend upp aðeins til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál. Ég tel að hér sé afar gott mál á ferðinni og geti orðið mjög jákvætt þegar til lengdar lætur. Það er ljóst að þetta á ekki einungis við um þá útlendinga sem augljóst er að hafa þegar lent í erfiðleikum vegna þekkingarskorts á ýmsu því sem íslenskt er og íslenskum aðstæðum eða lenda fyrirsjáanlega í slíkum erfiðleikum. Það ætti að vera keppikefli hvort eð er að upplýsa erlenda ríkisborgara sem gerast Íslendingar sem allra best um þær aðstæður sem þeir flytjast í þannig að það verði íslensku þjóðfélagi fengur og auðgandi fyrir íslenska menningu að bæta þeim aðfluttu mönnum í hópinn hvort sem um er að ræða börn, karla eða konur. Það er vissulega rétt sem hv. frummælandi sagði að í flestum tilvikum á þetta við um erlendar konur og þær eiga alla jafnan erfiðara með að sækja sér fræðslu um margvísleg efni vegna þeirra verkefna sem þær hafa að öðru leyti tekist á hendur. Enn fremur er ljóst að fræðsla af þessu tagi hlýtur að þurfa að standa til boða börnum sem hingað flytja stálpuð en eru alin upp erlendis af erlendum foreldrum og hafa engu því kynnst sem íslenskt er. Öllum þessum útlendingum mætti auðvelda aðlögunina og afstýra hugsanlegum erfiðleikum síðar. Og ekki einungis það heldur gæti slík fræðsla orðið jákvæð á báða vegu.
    Ég gæti ímyndað mér að í þessu skyni væri afar hentugt að nýta fjarkennslu vegna þess að ýmsir þeir útlendingar sem erfiðast eiga með aðlögun búa á fámennum stöðum víða um landið, þ.e. fólk sem kemur hingað til starfa t.d. í fiskvinnslu og gengur síðan í hjúskap með íslenskum mönnum. Fræðsla þeirra útlendinga sem í fámenninu búa gæti orðið flókið mál. Kæmist ef til vill nokkuð seint í framkvæmd að láta skólakerfið á hverjum stað hafa slík námskeið á boðstólum með jafneðlilegum hætti og skólareksturinn er á þeim stöðum þar sem fólkið
býr. En vissulega væri það æskilegast. Mér virðist að einmitt í slíku tilfelli ætti að vera hægt að greiða stórlega fyrir og auka jafnrétti þessa aðflutta fólks hvar sem það býr á landinu með því að nota fjarkennslu sem hefur verið allt of lítið notuð. Nýta má sjónvarpið og útvarpið í þessu skyni ásamt leiðbeiningu frá skólanum á staðnum. Þetta vildi ég sérstaklega nefna en þó fyrst og fremst það að orðalag sjálfrar tillögunnar þykir mér jákvætt. Vildi ég óska að tillagan fengi sem greiðastan gang í gegnum þingið og yrði framkvæmd sem allra fyrst.