Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég vil eindregið taka undir efni þessarar tillögu sem hér er fram borin og tel mjög brýnt að það verði komið á skipulegri fræðslu og leiðsögn fyrir útlendinga sem taka sér búsetu á Íslandi eins og þessi tillaga kveður á um.
    Ég tel ástæðu til þess að nefna það í þessari umræðu að seint á sl. ári bárust félmrn. tvö erindi sem lúta að þessu efni. Annars vegar frá verkamannafélaginu Dagsbrún og hins vegar bréf frá félagsmálastjóra í einu sveitarfélaganna.
    Í bréfinu frá Dagsbrún var vakin athygli á því að brýnt væri að réttarstaða útlendinga sem vinna við heimilisstörf verði tryggð eins og kostur er og dvalarleyfi ekki veitt nema að fyrir liggi að viðkomandi hafi kynnt sér upplýsingar sem varða réttarstöðu og fleira, þannig að viðkomandi vissu að hverju þeir gengju varðandi vinnuna og fleira.
    Efni bréfs félagsmálastjórans var að það væri brýnt að könnun færi fram á högum og aðstæðum þeirra kvenna sem koma frá fjarlægum menningarsvæðum og stofna til hjúskapar án teljandi kynna.
    Ég taldi því brýnt í ljósi þessara erinda sem ég fékk að skipa starfshóp sem ég og gerði á sl. ári til þess að athuga stöðu kvenna sem koma frá fjarlægum menningarsvæðum. Um er að ræða um 100 konur frá Filipseyjum og Thailandi. Starfshópurinn er skipaður fulltrúum frá dómsmrn., félmrn. og Útlendingaeftirlitinu og verkefni hans er m.a. að kanna hvernig sé best að upplýsa þessar konur um réttarstöðu þeirra og koma á fræðslu um ýmis atriði sem tengjast henni eins og fram kemur í þessari þáltill.
    Hér er ekki um að ræða sama starfshóp og hv. 1. flm. þessarar þáltill. nefndi. Það var óformlegur starfshópur á vegum menntmrn. en í honum voru
einnig fulltrúi Kvennaathvarfsins og Jafnréttisráðs. Ég hef einmitt talið það brýnt að tengja saman starf starfshópsins sem ég skipaði og þessa óformlega starfshóps á vegum menntmrn. og óskaði eftir því að fulltrúi frá menntmrn. kæmi inn í starfshópinn sem ég skipaði í fyrra.
    Ég vænti þess að niðurstaða starfshópsins liggi fyrir hið allra fyrsta og geri mér vonir um að fljótlega verði hægt að kynna niðurstöðu þessa starfs í ríkisstjórninni og hrinda því í framkvæmd, sem ég tel mjög brýnt, að réttarstaða þessara kvenna verði tryggð og þær fái skipulega fræðslu einmitt eins og þessi þáltill. kveður á um.