Frjáls flugrekstur
Mánudaginn 05. mars 1990


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu enda fór framsagan fyrir málinu því miður fram hjá mér. En ég hef sjálfur reynslu af frjálsri verðlagningu og verðmyndun sem hv. þm. Karvel Pálmason kom hér inn á og ég get alveg fullvissað hann um það að hún hefur leitt til lægra vöruverðs. Í dag er frjáls álagning á innfluttum vörum að meginstofni til, ef ekki öllum. Ég held að þingmaðurinn ætti að beita sér fyrir nýrri könnun til að fá sannleikann í ljós því að ég hygg að þá komi það skýrt fram að verðlag í landinu hefur lækkað neytendum og allri þjóðinni til góðs.
    Það má kannski líka rifja það upp að þegar hér voru tvö skipafélög, annað sem enn er við lýði og heitir Eimskip og hitt sem ákveðin öfl í landinu drápu sem hét Hafskip, þá var mikil samkeppni um verð á fragt sem leiddi til miklu lægra vöruverðs, miklu lægri fragtflutninga. Nákvæmlega það sama gildir um flugreksturinn og þess vegna styð ég þá hugmynd og þá tillögu sem hér er lögð fram, að flugrekstur á að vera frjáls. Þó menn hafi hér aðallega talað um farþegaflug verðum við líka að tala um fragtina. Hér er mikið flutt inn með flugvélum og eru þeir flutningar má segja eingöngu í höndum Flugleiða og á slíku verðlagi að það er ekki nokkru lagi líkt sem verður til þess að verðlag í landinu er allt of hátt. Það er ekki síst með þetta í huga sem ég styð hugmyndir eins og fram eru komnar hjá hv. þm. Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni. Hins vegar er spurningin, hversu frjálst á það að vera? Hvað á að hleypa mörgum flugfélögum inn á ákveðnar leiðir? Ég hygg að það séu til einhverjar alþjóðlegar reglur um það og eftir þeim ber væntanlega að fara.
    Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins fá að undirstrika það að frjáls samkeppni leiðir til góðs. Fyrir því höfum við mörg dæmi og margt sem sannar það. Ég hvet hv. 3. þm. Vestf. til að kanna betur málið áður en hann fer með slíkar fullyrðingar hér úr ræðustól.