Vöruþróunarsjóður
Mánudaginn 05. mars 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um vöruþróunarsjóð. Hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lagafrumvarp sem heimilar að leggja ósótt orlofsfé til launþega hjá Pósti og síma og gleymdar innistæður hjá bönkum og sparisjóðum í sérstakan sjóð til að efla þróun á nýjum framleiðsluvörum hér á landi. Verkinu sé lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.``
    Ástæðan fyrir því að þessi till. er flutt er sú að víða eru peningar í kerfinu sem hafa ekki verið sóttir, hafa aldrei verið hafnir. Hjá Pósti og síma liggur orlofsfé, um 50 millj. kr., í lok síðasta árs, sem enginn hafði sótt, þrátt fyrir ábendingar, auglýsingar og ítrekanir. Það sama gildir um ýmsa banka og sparisjóði og aðra sjóði að þar eru peningar sem hafa gleymst einhverra hluta vegna, enginn á, en þeir liggja áfram inni í viðkomandi bönkum og sparisjóðum.
    Flm. er þeirrar skoðunar að þessa peninga eigi að nota til vöruþróunar og stofna í því skyni sérstakan sjóð. Sjóðurinn verði notaður til að þróa nýjar vörur til útflutnings. Það mundi koma allri þjóðinni til góða þar sem segja má að þjóðin eigi þessa peninga þar sem þjóðin hefur gleymt þeim. Það mundi efla allt atvinnulíf og framleiðsluna í landinu. Það mundi styrkja útflutninginn. Þetta styrkir og eflir hag þjóðarinnar allrar.
    Íslenskir hugvitsmenn hafa margir hverjir aldrei náð að koma sínum hugmyndum á framfæri vegna þess að ekki hafa verið peningar til þess. Stöðugt eru að skjóta upp kollinum nýjar og nýjar hugmyndir sem eru þess virði að þær séu skoðaðar og þeim sé gaumur gefinn. Hvort hægt sé að vinna úr þeim nýjar vörutegundir sem gætu orðið að útflutningsvöru.
    Það er lagt til að í stjórn þessa sjóðs séu skipaðir menn frá samtökum útflytjenda, framleiðenda og iðnrekenda, ásamt Verslunarráði og Félagi hugvitsmanna. Sjóðurinn heyri undir viðskrh. og verði honum falið að semja reglugerð um sjóðinn og skipa oddamann í stjórnina.
    Virðulegi forseti. Ég mæli með því að þessi till. fari til síðari umr. og til hv. allshn.