Einkavæðing
Mánudaginn 05. mars 1990


     Flm. (Kristinn Pétursson):
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. um einkavæðingu sem hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna nú þegar til samkeppni um tillögur um einkavæðingu með sölu ríkisfyrirtækja og hvernig skuli að henni staðið.``
    Öllum er ljós sá vandi sem við blasir í ríkisfjármálum. Til þess að leysa hluta þessa vanda er nærtækt ráð að selja ríkisfyrirtæki og því er þessi tillaga flutt.
    Eðlilegt er að standa að þessu með þeim hætti að efna til samkeppni um tillögur af þessu tagi, hvaða ríkisfyrirtæki skuli seld og hvernig skuli að því staðið.
    Ég tel að einkarekstur hafi sýnt það í hinum vestræna heimi að hann hafi yfirburðakosti hvað varðar hagkvæmni í rekstri, borgurum hins vestræna heims til bættra lífskjara. Það er mjög þýðingarmikið í ljósi nýafstaðinna kjarasamninga að leitað verði sem flestra leiða til þess að minnka hallann á fjárlögum. Sala á ríkisfyrirtækjum er mjög auðveld leið til þess að rétta af fjárlagahalla og því eðlilegt að efna til samkeppni nú þegar um hvaða ríkisfyrirtæki skuli seld og hvernig skuli að því staðið.
    Samkeppni um mál sem þetta tryggir það að margar góðar hugmyndir komi fram þannig að hér yrði um vandaða málsmeðferð að ræða. Ég teldi eðlilegt að forsrh., fjmrh. og viðskrh. skipi einn mann hver í nefnd sem sæi um framkvæmd málsins.
    Hugmyndir frá einkaaðilum um málefni sem þetta verða alltaf ferskari og betri en hugmyndir ofan úr kerfinu, þ.e. ég hef meiri trú á fólkinu en kerfinu sjálfu. Markmiðið, eins og áður sagði, með þessari tillögu er að finna leiðir til þess að minnka fjárlagahallann og um leið að minnka glórulausa seðlaprentun framkvæmdarvaldsins sem lengi hefur viðgengist því ríkissjóður Íslands hefur mörg undanfarin ár verið fjármagnaður með svokölluðum yfirdrætti í Seðlabankanum sem síðan er breytt í erlenda lántöku og þannig hefur fjárlögum hvers árs verið lokað. Þessi aðgerð felur í sér útþynningu á gjaldmiðli landsins og skapar að mínu mati gífurleg vandamál. Ég tel að afleiðingin af því að þynna út gjaldmiðilinn með seðlaprentun sé m.a. sú gífurlega verðbólga sem við höfum búið við undanfarin ár og þensla og að vextir rjúka upp úr öllu valdi. Vísitalan hækkar og spákaupmennska t.d. í fasteignum vex. Síðan vill fólk auðvitað launahækkanir vegna verðhækkana, gengið er fellt o.s.frv. Þessa sögu þekkjum við. En forsögu málsins tel ég vera þá að ríkissjóður hafi lifað um efni fram og prentað bara seðla fyrir hallanum. Því er þessi tillaga flutt um einkavæðingu með því að
selja ríkisfyrirtæki til að reyna að snúa ofan af hlutunum en ekki halda áfram á sömu braut. Ég tel að efnahagslegt umhverfi hér á landi sé að mörgu leyti beinlínis fjandsamlegt öllum heilbrigðum atvinnurekstri og með fjandsamlegt á ég við það að óstjórn í efnahagsmálunum og glórulaus seðlaprentun geri það að verkum að ekki er hægt að reka fyrirtæki nærri

eins vel og undir eðlilegum kringumstæðum.
    Við getum nefnt sem dæmi að blaðið Economist gerði könnun á því með svokölluðu hamborgaragengi hér fyrir rúmu ári síðan. Þá kom það í ljós að hamborgarar á Íslandi voru 186% dýrari en í New York. Það er ágætis sýnishorn þess að allt er dýrt á Íslandi, bókstaflega allt, því að verðbólgan er svo mikil og óstjórnin að við erum ekki að verða samkeppnisfær á neinum sviðum, enda hráefnin í vaxandi mæli flutt úr landi, einmitt vegna þess að efnahagslegt umhverfi er hér hálffjandsamlegt eins og ég áður sagði. Við eigum nóg af fínum auðlindum og við getum gert miklu betur í að nýta þessar auðlindir á alla vegu, en forsendan fyrir því er að ríkissjóður Íslands verði rekinn með miklu betri hætti en hann er í dag og nákvæmni verði viðhöfð á öllum sviðum þar.
    Ég vil nefna það sem dæmi að efnahagsleg stórveldi úr rústum seinni heimsstyrjaldarinnar, eins og Japan og Þýskaland, urðu að veruleika m.a. fyrir mikla nákvæmni í fjármálum, fjárfestingum og opinberum rekstri. Ég held að það sé alveg orðið tímabært að við tökum þessa nákvæmni í rekstri til fyrirmyndar og reynum að fara í spor þessara þjóða hvað þetta varðar. Með vaxandi einkavæðingu á næstu árum getum við minnkað fjárlagahalla og tryggt þannig vaxandi stöðugleika í efnahagsmálum. Stöðugleika í efnahagsmálum tel ég vera forsendu fyrir því að bæta lífskjör hér á landi og auka kaupmáttinn síðar meir. Ég held að aukin einkavæðing með sölu ríkisfyrirtækja sé lykillinn að auknum stöðugleika vegna þess að það leiðir af sér minni halla á fjárlögunum og lántökuþörf ríkisins minnkar við sölu ríkisfyrirtækja og þannig minnkar eftirspurn ríkisins eftir fjármagni sem aftur leiðir af sér lækkandi fjármagnskostnað.
    Tillagan fæst vonandi samþykkt hér í hv. Alþingi, enda felur hún einungis í sér söfnun á hugmyndum um hvernig skuli staðið að sölu hinna ýmsu
ríkisfyrirtækja og til að tryggja það að góðar hugmyndir eigi greiða leið að kerfinu og að þessari umræðu. Ég held að stjórnmálamenn eigi að gera meira að því að treysta fólkinu í landinu til að reka fyrirtækin og það muni leiða okkur til farsældar og efnahagslegrar velmegunar.
    Ég legg því til að lokum, virðulegi forseti, að þessari tillögu verði vísað til allshn.